Sýni úr úrgangsvatni frá Fukushima innan marka

Sýni sem tekin hafa verið úr sjónum þar sem sem úrgangsvatn frá Fukushima-kjarnorkuverinu hefur verið losað eru öll innan viðmiðunarmarka hvað varðar geislavirkni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tokyo Electric Power Co (TEPCO). Fullyrt er að fyllsta öryggis sé gætt við losunina. AFP-fréttastofan greinir frá.

Fyrir tveimur árum var ákveðið að ráðast í gerð neðansjávargangna til að losa 1,34 tonn af vatni sem safnaðist upp í rústum kjarnorkuversins við kælingu þess. Á fimmtudag var svo hafist handa við að losa vatnið og voru sýnin tekin í kjölfarið.

Fullyrt er að vatnið hafi verið síað af nánast öllum geislavirkum frumefnum, fyrir utan þrívetni, sem er aðeins hættulegt mönnum í mjög stórum skömmtum. Það telst þó innan marka í þeim sýnum sem hafa verið skoðuð. Einnig hafa verið tekin sýni úr fiskum á svæðinu.

Losun úrgangsvatns hófst í gær.
Losun úrgangsvatns hófst í gær. AFP/Philip Fong

Kínverjar banna innflutning frá Japan

Sýnin sem tekin voru í gær voru einhvers konar hraðpróf, en sýni hafa verið tekin á ellefu stöðum sem fara til enn frekari rannsóknar og munu niðurstöður þeirra liggja fyrir á sunnudag.

Umhverfisverndarsamtökin Greenpeace telja þó síun á vatninu ekki virka sem skyldi og að mikið magn af geislavirkum efnum muni fara í sjóinn.

Þá eru nágrannaríkin ekki sátt með ákvörðun Japana að losa vatnið í sjóinn og hafa Kínverjar sett bann við innflutningi sjávarafurða frá tíu fyrirtækjum víða um Japan. Japanir hafa þó hvatt kínversk stjórnvöld til að endurskoða ákvörðunina og aflétta banninu.

Talið er að um 18.500 manns hafi látist þegar öflugur jarðskjálfti og stór flóðbylgja leiddu til kjarnorkuslyss í Fukushima-kjarnorkuverinu fyrir 12 árum. Rafmagn fór af verinu og kjarnaofnar bráðnuðu þar sem kælikerfið virkaði ekki sem skyldi.

AFP/Prerna Priyanka
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert