Vikið úr starfi eftir fund með ísraelskum ráðherra

Najla al-Mangoush var vikið úr starfi sem utanríkisráðherra Líbýu um …
Najla al-Mangoush var vikið úr starfi sem utanríkisráðherra Líbýu um helgina. AFP/Ryad Kramdi

Utanríkisráðherra Líbýu var vikið úr starfi um helgina eftir að hún fundaði með utanríkisráðherra Ísrael í Róm í síðustu viku. Líbýa viðurkennir ekki sjálfstæði Ísraels. 

Abdulhamid Dbeibah forsætisráðherra greindi frá því í yfirlýsingu í gær að utanríkisráðherranum Najla al-Mangoush hafi verið „tímabundið vikið úr starfi“ og að dómsmálaráðherra myndi rannsaka störf al-Mangoush. 

Utanríkisráðherra Ísrael greindi fyrst frá fundinum í yfirlýsingu. Þar sagði að hann hefði verið haldinn af Antonio Tajani, utanríkisráðherra Ítalíu.

Í yfirlýsingunni sagði að um væri að ræða fyrsta skrefið í að mynda tengsl á milli ríkjanna. Ráðherrarnir eiga meðal annars að hafa rætt mikilvægi þess að varðveita menningu lýbískra gyðinga, svo sem grafreiti gyðinga í Líbýu og sýnagógur. 

„Stærð og staðsetning Líbýu býður upp á mikla möguleika fyrir ríki Ísrael,“ er haft eftir Eli Cohen, utanríkisráðherra Ísrael, í yfirlýsingunni. 

Fundur ráðherranna leiddi til harðra mótmæla á götum borga Líbýu í gær. 

Fundur ráðherranna leiddi til harðra mótmæla á götum borga Líbýu.
Fundur ráðherranna leiddi til harðra mótmæla á götum borga Líbýu. AFP/Mahmud Turkia

Tilviljun og ekki formlegur

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Líbýu í gærkvöldi sagði að fundurinn hafi átt sér stað af tilviljun og ekki verið formlegur. Á fundinum hafi ekki átt sér stað nein umræða eða samkomulag.

Þá sagði að al-Mangoush hafi harðneitað að hitta fulltrúa Ísraelsmanna og að hún væri fylgjandi stefnu Líbýu um Ísrael. 

Utanríkisráðuneyti Líbýu sakaði Ísraelsmenn um að dulbúa atvikið sem fund eða viðræður. 

Ítölsk stjórnvöld hafa ekki staðfest hvort að fundurinn átti sér stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert