Maki forsætisráðherrans gagnrýndur fyrir nauðgunarummæli

Sjónvarpsmaðurinn Andrea Giambruno ásamt maka sínum Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.
Sjónvarpsmaðurinn Andrea Giambruno ásamt maka sínum Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. Ljósmynd/Instagram

Ítalski sjónvarpsþáttastjórnandinn Andrea Giambruno hefur verið gagnrýndur fyrir nýleg ummæli sín um fórnarlömb nauðgunar. Giambruno er maki forsætisráðherra Ítalíu, Giorgiu Meloni.

Giambruno, sem stýrir þáttunum Diario del Giorno, eða Dagbókinni, lét ummælin falla í umfjöllun sinni um hópnauðganir í landinu, í kjölfar tveggja nýlegra tilfella sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum þar í landi.

Tóku árásina upp

Sex ungmenni réðust nýlega á tvær ungar konur í bænum Cavaino, nálægt Napólí, en forsætisráðherrann hefur boðað komu sína í bæinn til að sýna samstöðu með þolendum. 

Einnig vakti saga ungrar konu á Sikiley athygli í júlí á þessu ári eftir að sjö karlmenn réðust á hana á byggingarsvæði og tóku árásina upp á myndband.

Samkvæmt umfjöllun BBC hefur konan, sem er 19 ára að aldri, tjáð sig um árásina á samfélagsmiðlum og sagt upplifunina og eftirmála hennar þungbæra, en hún dvelur nú í úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. 

Forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, heimsækir Cavaino í dag til að …
Forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, heimsækir Cavaino í dag til að sýna samstöðu með þolendunum, en hefur ekki tjáð sig um ummæli Giambruno. AFP

Ganga beint í gin úlfsins 

Sagði Giambruno að konur hefðu að sjálfsögðu rétt á því að verða ölvaðar þegar þær færu út á lífið, það ætti ekki að vera neitt vandamál eða valda neinum misskilningi, og líkti ofbeldismönnum við úlfa í samtali við samstarfsmann sinn í þættinum. 

„En ef þú sleppir að verða full og missa tökin, þá gætir þú eflaust komist hjá því að verða fyrir vandræðum og að ganga beint í gin úlfsins,“ sagði Giambruno, en hann hefur síðar sagt að orð hans hafi verið tekin úr samhengi.

Ætti að kenna drengjum samþykki og virðingu

Ummæli Giambruno hafa verið fordæmd af mörgum, þar á meðal mörgum andstæðingum Meloni.

Celia D'Elia, þingkona stjórnarandstöðunnar á Ítalíu, biðlaði til Giambruno að kenna frekar drengjum að sýna virðingu og fá samþykki en að kenna stúlkum að vera á varðbergi.

Giambruno hefur sagt andmælendur sína taka orð sín  úr samhengi og kveðst aldrei hafa sagt að karlmönnum væri frjálst að nauðga konum sem væru undir áhrifum áfengis, heldur hafi hann tekið skýrt fram að menn sem brytu á konum væru viðurstyggilegar skepnur.  

Meloni, sem á unga dóttur með Giambruno, hefur ekki tjáð sig um ummælin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert