Daníel Gunnarsson sekur

Kviðdómendur fundu Daníel Gunnarsson sekan á miðvikudaginn. Dómsuppkvaðning verður 25. …
Kviðdómendur fundu Daníel Gunnarsson sekan á miðvikudaginn. Dómsuppkvaðning verður 25. október. Ljósmynd/Héraðsdómur Kern-sýslu

Tólf kviðdómendur fyrir rétti í Kern-sýslu í Kaliforníu kváðu upp þann úrskurð á miðvikudaginn að Daníel Gunnarsson væri sekur um manndráp að yfirlögðu ráði, með því að hafa myrt Katie Pham, fyrrverandi bekkjarsystur sína, auk þess að hafa viðhaft illa meðferð á líki hennar í maí 2021.

Þrír kviðdómendanna brustu í grát þegar dómsformaðurinn las úrskurðinn en samkvæmt ákæru myrti Daníel konuna, sem var 21 árs gömul, með því að stinga hana fjölmörgum stungum með ísnál, þar af oftar en níu sinnum í höfuðið.

Kvað Samantha Allen saksóknari Daníel hafa veitt Pham heitinni áverkana með 25 sentimetra langri ísnál vegna afbrýðisemi í hennar garð en hún hafði þá tjáð honum að hún endurgyldi ekki tilfinningar hans í hennar garð. Vettvangurinn var bílskúr á heimili stjúpföður Daníels í Ridgecrest en þangað flutti fjölskyldan fyrir nokkrum árum, Daníel er íslenskur í föðurættina en móðir hans tékknesk.

Ekki sjálfrátt á verknaðarstundu

Lexi Blythe, verjandi Daníels, vísar því á bug að afbrýðisemi hafi verið kveikjan að ódæðinu og heldur því auk þess fram að Daníel hafi ekki verið sekur um að ráða Pham af dögum. Teldu kviðdómendur Daníel hins vegar sekan krafðist Blythe vægari refsingar, fyrir manndráp af ásetningi í stað manndráps að yfirlögðu ráði.

Lagði verjandinn fram þau rök að Daníel hefði ekki verið sjálfrátt á verknaðarstundu, vitni hefðu greint frá hugleiðingum hans um sjálfsvíg áður en blóði drifið lík Pham fannst í bílskúrnum að morgni 18. maí 2021.

„Ykkur er auðsýnilega þyngt,“ sagði dómarinn Brian M. McNamara er hann þakkaði kviðdómendum störf sín. Dómsuppkvaðning í máli Daníels verður 25. október.

The Bakersfield Californian

23 ABC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert