Mohamed Al Fayed látinn

Dodi Al Fayed, sonur Mohameds Al Fayeds, lést ásamt Díönu …
Dodi Al Fayed, sonur Mohameds Al Fayeds, lést ásamt Díönu prinsessu í bílslysi árið 1997. AFP

Viðskiptajöfurinn Mohamed Al Fayed, sem átti um tíma Harrods og fótboltaliðið Fulham, er látinn 94 ára að aldri. Sonur Fayeds lést ásamt Díönu prinsessu í bílslysi árið 1997.

Al Fayed fæddist í Egyptalandi og starfaði við innflutning víða í Mið-Austurlöndum, ásamt fyrstu eiginkonu sinni. Síðan fluttist hann til Englands á 8. áratuginum en fékk þó aldrei ríkisborgararétt í landinu.

Í kjölfar þess að Dodi Al Fayed, elsti sonur hans, lést í bílslysis ásamt Díönu Prinsessu, varði Al Fayed mörgum árum í að draga kringumstæður andláts þeirra í efa. Hélt hann því lengi fram að Dodi og Dí­ana hafi verið myrt og sakaði m.a. Filippus prins og bresku leyniþjón­ust­una um að hafa átt þátt í and­láti son­ar síns og Díönu.

Seinasta áratug hefur hann þó dregið sig úr sviðsljósinu og hefur búið ásamt eiginkonu sinni í Surrey í suðausturhluta Englands.

Lést sökum aldurs

Í yfirlýsingu sagði fjölskylda Al Fayeds: „Frú Mohamed Al Fayed, börn hennar og barnabörn, vilja staðfesta að að ástkær eiginmaður hennar, faðir þeirra og afi, Mohamed, lést sökum aldurs, miðvikudaginn 30. ágúst, 2023.“

Kemur þar einnig fram að hann hafi átt langt og sæluríkt æviköld, umkringdur nánum vinum og fjölskyldu. „Fjölskyldan biður um að tillit sé tekið til þeirra einkalífs.“

Fótboltaliðið Fulham, sem Al Fayed átti um hríð, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að klúbbnum þyki það „ótrúlega dapurt“ að heyra af dauða hans. „Við skuldum Mohamed þakkir fyrir það sem hann gerði fyrir okkar félag, og við hugsum til fjölskyldu hans og vina á þessum dapurlegu tímum,“ segir í tilkynningunni.

Giftist systur vopnasala

Ungur tók Al Fayed sín fyrstu skref í viðskiptaheiminn þegar hann kynntist fyrstu eiginkonu sinni, Samiru Khashoggi, systur arabíska vopnasalans Adnan Khashoggi. Hún réð hann þá til starfa hjá arabísku innflutningsfyrirtæki.

Hjónabandið entist aðeins tvö ár en starfið veitti Al Fayed tækifæri til að mynda nýjar tengingar við ýmsa viðskiptajöfra úr egypsku atvinnulífi og seinna stofnaði hann skipafyrirtæki. Árið 1966 varð hann síðan ráðgjafi eins af ríkustu mönnum heims, soldánsins af Brúnei.

Hann flutti til Bretlands árið 1974 og fimm árum seinna keypti hann Ritz hótelið fræga í París ásamt Ali, bróður sínum. Um miðjan níunda áratuginn eignuðust bræðurnir Harrods eftir hatramma baráttu við breska viðskiptajöfurinn Rowland „Tiny“ Rowland.

Al Fayed keypti enska fótboltaliðið Fulham á 10. áratuginum. Liðið komst í úrvalsdeild enska boltans undir hans eignarhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert