Funda í Rússlandi

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands ætla …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands ætla að funda í september. Myndin er tekin á fundi þeirra árið 2019. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kór­eu, stefn­ir á að ferðast til Rúss­lands nú í sept­em­ber til að hitta Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta, að því er banda­rísk­ur emb­ætt­ismaður greindi CBS frá.  

Leiðtog­arn­ir tveir eru sagðir ætla að ræða mögu­leik­ann á því að Norður-Kórea út­vegi Moskvu vopn til að nota í inn­rás­inni í Úkraínu sagði emb­ætt­ismaður­inn. 

Ná­kvæm staðsetn­ing fyr­ir­hugaðs fund­ar ligg­ur ekki fyr­ir

Sam­kvæmt heim­ild­um New York Times er talið lík­leg­ast að Kim muni koma til með að ferðast í bryn­vörðum lest­um. 

Lík­legt er talið að blásið hafi verið til fund­ar­ins í kjöl­far þess að Hvíta húsið sagðist hafa und­ir hönd­um nýj­ar upp­lýs­ing­ar um að vopnaviðræður ríkj­anna væru á góðri leið. 

John Kir­by, talsmaður þjóðarör­ygg­is­ráðsins, sagði að varn­ar­málaráðherra Rúss­lands, Ser­gei Sjoígú, hefði reynt að „sann­færa Pyongyang um að selja Rúss­um stór­skota­liðsskot­færi“ í ný­legri heim­sókn hans til Norður-Kór­eu.

Meðal vopna sem voru til sýn­is á fund­in­um var Hwasong-eld­flaug­in (ICBM). Var þetta í fyrsta skipti sem Kim opn­ar dyr lands­ins fyr­ir er­lend­um gest­um, frá upp­hafi kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. 

Síðan fund­ur­inn var hald­inn eru Pútín og Kim sagðir hafa skrif­ast á og heitið því að auka tví­hliða sam­starf sitt. 

„Við hvetj­um Norður-Kór­eu til að hætta vopnaviðræðum sín­um við Rússa og standa við op­in­ber­ar skuld­bind­ing­ar sem Pyongyang hef­ur gert, um að út­vega hvorki né selja vopn til Rúss­lands,“ sagði Kir­by.

Hann varaði við því að Banda­rík­in myndu grípa til aðgerða, þar á meðal með því að beita refsiaðgerðum, ef Norður-Kórea myndi út­vega Rúss­um vopn.

Örygg­is­full­trú­ar ferðuðust til Rúss­lands 

Sam­kvæmt New York Times gæti fund­ur þeirra Kim og Pútín átt sér stað í borg­inni Vla­di­vostok, á aust­ur­strönd Rúss­lands.

Diplóma­tísk­ur frétta­rit­ari blaðsins, Edw­ard Wong, sagði í sam­tali við breska rík­is­út­varpið, BBC, að fram­herj­ar norður-kór­eskra emb­ætt­is­manna hefðu ferðast til Vla­di­vostok og Moskvu seint í síðasta mánuði.

Í hópn­um eru sagðir hafa verið ör­ygg­is­full­trú­ar sem hafa yf­ir­sýn yfir siðaregl­ur um ferðalög leiðtoga, sem gef­ur sterka vís­bend­ingu um áform Kim, sagði Wong. Þá sagði hann jafn­framt að Norður-Kórea gæti verið að leita að „háþróaðri tækni“ frá Moskvu sem gæti aðstoðað þá við gervi­hnatta- og kjarn­orku­knúna kaf­báta­áætl­un sína.

„Norður-Kórea er einnig eitt af fá­tæk­ustu lönd­um heims,“ sagði blaðamaður New York Times. „Landið geng­ur oft í gegn­um hung­ur­köst og er því einnig að leita að mat­araðstoð frá Rússlandi.“

Ólík­legt að af heim­sókn­inni verði

John Ever­ard, sem starfaði sem sendi­herra Bret­lands í Norður-Kór­eu á ár­un­um 2006 til 2008, sagði í sam­tali við BBC að um­fjöll­un um mögu­lega heim­sókn væri „sterk ástæða fyr­ir því að nú væri ólík­legt að heim­sókn­in myndi fara fram“.

„Kim Jong Un er virki­lega væni­sjúk­ur um per­sónu­legt ör­yggi sitt. Hann legg­ur sig fram um að halda ferðum sín­um leynd­um og ef vitað er um áform hans, um að fara til Vla­di­vostok, til að hitta Pútín for­seta, þá er lík­legt að hann hætti við allt,“ sagði hann.

Leiðtog­arn­ir tveir áttu síðast leiðtoga­fund árið 2019, þegar Kim kom með lest til Vla­di­vostok. Emb­ætt­is­menn tóku á móti hon­um með hefðbundnu brauði og salti.

Eft­ir fund­inn sagði Pútín að Kim krefðist „ör­ygg­is­trygg­inga“ til að hætta við kjarn­orku­áætlun sína. Fund­ur þeirra var hald­inn ein­ung­is mánuði eft­ir leiðtoga­fund Kim og þáver­andi for­seta Banda­ríkj­anna, Don­ald Trump, í Víet­nam. 

Kim og Pútín í veislu sem Kim stóð fyrir þegar …
Kim og Pútín í veislu sem Kim stóð fyr­ir þegar rúss­neska varn­ar­sendi­nefnd­in heim­sótti Norður-Kór­eu í júlí á síðasta ári. AFP/​Kcna Via Kns
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert