Funda í Rússlandi

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands ætla …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands ætla að funda í september. Myndin er tekin á fundi þeirra árið 2019. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, stefnir á að ferðast til Rússlands nú í september til að hitta Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta, að því er bandarískur embættismaður greindi CBS frá.  

Leiðtogarnir tveir eru sagðir ætla að ræða möguleikann á því að Norður-Kórea útvegi Moskvu vopn til að nota í innrásinni í Úkraínu sagði embættismaðurinn. 

Nákvæm staðsetning fyrirhugaðs fundar liggur ekki fyrir

Samkvæmt heimildum New York Times er talið líklegast að Kim muni koma til með að ferðast í brynvörðum lestum. 

Líklegt er talið að blásið hafi verið til fundarins í kjölfar þess að Hvíta húsið sagðist hafa undir höndum nýjar upplýsingar um að vopnaviðræður ríkjanna væru á góðri leið. 

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðsins, sagði að varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Sjoígú, hefði reynt að „sannfæra Pyongyang um að selja Rússum stórskotaliðsskotfæri“ í nýlegri heimsókn hans til Norður-Kóreu.

Meðal vopna sem voru til sýnis á fundinum var Hwasong-eldflaugin (ICBM). Var þetta í fyrsta skipti sem Kim opnar dyr landsins fyrir erlendum gestum, frá upphafi kórónuveirufaraldursins. 

Síðan fundurinn var haldinn eru Pútín og Kim sagðir hafa skrifast á og heitið því að auka tvíhliða samstarf sitt. 

„Við hvetjum Norður-Kóreu til að hætta vopnaviðræðum sínum við Rússa og standa við opinberar skuldbindingar sem Pyongyang hefur gert, um að útvega hvorki né selja vopn til Rússlands,“ sagði Kirby.

Hann varaði við því að Bandaríkin myndu grípa til aðgerða, þar á meðal með því að beita refsiaðgerðum, ef Norður-Kórea myndi útvega Rússum vopn.

Öryggisfulltrúar ferðuðust til Rússlands 

Samkvæmt New York Times gæti fundur þeirra Kim og Pútín átt sér stað í borginni Vladivostok, á austurströnd Rússlands.

Diplómatískur fréttaritari blaðsins, Edward Wong, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að framherjar norður-kóreskra embættismanna hefðu ferðast til Vladivostok og Moskvu seint í síðasta mánuði.

Í hópnum eru sagðir hafa verið öryggisfulltrúar sem hafa yfirsýn yfir siðareglur um ferðalög leiðtoga, sem gefur sterka vísbendingu um áform Kim, sagði Wong. Þá sagði hann jafnframt að Norður-Kórea gæti verið að leita að „háþróaðri tækni“ frá Moskvu sem gæti aðstoðað þá við gervihnatta- og kjarnorkuknúna kafbátaáætlun sína.

„Norður-Kórea er einnig eitt af fátækustu löndum heims,“ sagði blaðamaður New York Times. „Landið gengur oft í gegnum hungurköst og er því einnig að leita að mataraðstoð frá Rússlandi.“

Ólíklegt að af heimsókninni verði

John Everard, sem starfaði sem sendiherra Bretlands í Norður-Kóreu á árunum 2006 til 2008, sagði í samtali við BBC að umfjöllun um mögulega heimsókn væri „sterk ástæða fyrir því að nú væri ólíklegt að heimsóknin myndi fara fram“.

„Kim Jong Un er virkilega vænisjúkur um persónulegt öryggi sitt. Hann leggur sig fram um að halda ferðum sínum leyndum og ef vitað er um áform hans, um að fara til Vladivostok, til að hitta Pútín forseta, þá er líklegt að hann hætti við allt,“ sagði hann.

Leiðtogarnir tveir áttu síðast leiðtogafund árið 2019, þegar Kim kom með lest til Vladivostok. Embættismenn tóku á móti honum með hefðbundnu brauði og salti.

Eftir fundinn sagði Pútín að Kim krefðist „öryggistrygginga“ til að hætta við kjarnorkuáætlun sína. Fundur þeirra var haldinn einungis mánuði eftir leiðtogafund Kim og þáverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í Víetnam. 

Kim og Pútín í veislu sem Kim stóð fyrir þegar …
Kim og Pútín í veislu sem Kim stóð fyrir þegar rússneska varnarsendinefndin heimsótti Norður-Kóreu í júlí á síðasta ári. AFP/Kcna Via Kns
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert