Svíi í haldi í yfir 500 daga

Josep Borrell segir ESB róa að því öllum árum að …
Josep Borrell segir ESB róa að því öllum árum að fá Floderus lausan. AFP

Josep Bor­rell, ut­an­rík­is­mála­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins, staðfesti í dag að sænskur embættismaður, Johan Floderus, hafi verið í haldi Írana í yfir 500 daga. 

Borell, sem er staddur í borginni Cadiz á Spáni, sagði við blaðamenn að ESB vinni hörðum höndum að lausn Floderus, sem er 33 ára gamall Svíi. 

Í gær staðfestu sænsk yfirvöld að hluta frásögn bandaríska dagblaðsins New York Times þar sem greint var frá varðhaldinu. Þar kom fram að sænskur ríkisborgari á fertugsaldri hefði verið í haldi íranskra yfirvalda frá því í apríl 2022.

Í dag gekk Borrell skrefinu lengra og greindi frá nafni mannsins og því að hann starfi fyrir utanríkismálaþjónustu ESB. 

Borrell tók enn fremur fram að aðgerðir Írana væru ólögmætar. Þá sagði hann að unnið væri dag og nótt að því að fá hann lausan úr haldi. Verkefninu muni ekki ljúka fyrr en að honum verði sleppt. 

Var í fríi þegar hann var handtekinn

Skömmu áður en Borrell tjáði sig um málið sendi fjölskylda Floderus frá sér yfirlýsingu. Þar kemur fram að hún sé í sárum og hafi miklar áhyggjur af honum. Þau segja að Floderus hafi verið handtekinn fyrirvaralaust og án nokkurrar ástæðu þegar hann var í fríi. Hann hafi nú setið í írönsku fangelsi í meira en 500 daga. 

„Við vitum að margir vinna að því að tryggja lausn hans og fyrir það erum við þakklát. Á sama tíma, þá er hver dagur mjög erfiður, fyrir okkur og síðast en ekki síst fyrir Johan,“ segir í yfirlýsingunni. 

„Þau verða að sleppa honum og leyfa honum að koma heim þegar í stað.“

Í júlí í fyrra greindu írönsk stjórnvöld frá því að þau hefðu handtekið mann sem væri grunaður um njósnir. Þetta gerðist hálfum mánuði eftir að íranskur ríkisborgari, Hamid Noury, var dæmdur í lífstíðarfangelsi í Svíþjóð fyrir sinn þátt í fjöldamorðum íranskra yfirvalda gegn mörg þúsund stjórnarandstæðingum árið 1988. Noury var fyrrverandi fangelsismálastjóri landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert