Ásókn í megrunarlyf styrkir efnahag Dana

Ozempic-sykursýkislyfið sem Novo Nordisk framleiðir.
Ozempic-sykursýkislyfið sem Novo Nordisk framleiðir. AFP

Mikil ásókn í sykursýkis -og megrunarlyf frá danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk hefur gert það að verðmætasta fyrirtæki Evrópu.

Þessi mikla eftirspurn hefur reynst mikil innspýting fyrir efnahaginn í Danmörku. 

„Ef það væri ekki fyrir Novo Nordisk þá hefði enginn vöxtur orðið á fyrstu sex mánuðum ársins,“ segir Lars Olsen, aðalhagfræðingur Danske Bank, í samtali við AFP fréttaveituna.

Hagnaður Novo Nordisk hefur aukist jafnt og þétt og því ber að þakka tveimur eftirsóttum lyfseðilsskyldum lyfjum, sykursýkislyfinu Ozempic og offitulyfinu Wegovy.

Stærsti skattgreiðandi landsins

Novo Nordisk-áhrifin má glöggt sjá í ríkiskassa Dana en fyrirtækið er stærsti skattgreiðandi landsins. Novo Nordisk, sem er stærsti insúlínframleiðandi í heimi, jók sölu á offitumeðölum sínum um 157 prósent á fyrri helmingi ársins.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þjáist meira en milljarður manna af offitu og meira en 530 milljónir manna af sykursýki.

Samkvæmt opinberum tölum jókst hagvöxtur í Danmörku á fyrri hluta ársins um 1,7 prósent á milli ára en ef lyfjaiðnaðurinn er undanskilinn dróst hann saman um 0,3 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka