Bandaríski leikarinn Danny Masterson hefur verið dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að nauðga tveimur konum snemma á þessari öld. AP-fréttastofan greinir frá.
Dómurinn var kveðinn upp í Los Angeles í Bandaríkjunum í dag en Masterson, sem er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í That 70's Show, var sakfelldur í maí á þessu ári.
Masterson var dæmdur fyrir að nauðga tveimur konum á heimili sínu í Hollywood Hills árin 2001 og 2003.
Hann var einnig kærður fyrir að nauðga einni annarri konu en kviðdómurinn taldi að ekki væri hægt að sanna það með nógu góðum sönnunargögnum. Saksóknari segir að Masterson hafi byrlað konunum og síðan beitt þær ofbeldi.
Um er að ræða annað skipti sem Masterson er stefnt fyrir dóm vegna ásakana um nauðgun en í desember tókst kviðdómi í Los Angeles ekki að komast að niðurstöðu í máli gegn leikaranum. Þá neitaði hann ásökununum og sagðist hafa verið ofsóttur vegna aðildar sinnar að Vísindakirkjunni.
Allar þrjár konunnar voru einnig í Vísindakirkjunni á þeim tíma sem atvikin eiga að hafa átt sér stað. Tvær kvennanna sögðu að aðilar innan kirkjunnar hafi hvatt þær til þess að halda þessu leyndu.