Yfirvöld á Spáni hafa sent 86 björgunarsveitarmenn og átta leitarhunda til Marokkó eftir formlega ósk um aðstoð frá stjórnvöldum í Marokkó.
Herflugvél fór frá borginni Zaragoza á Spáni í morgun til Marrakesh með 56 björgunarsveitarmönnum og fjórum leitarhundum. Önnur vél með 30 björgunarsveitarmönnum og fjórum leitarhundum fór frá Madríd.
Björgunarsveitirnar munu aðstoða heimamenn við leit að fólki sem hefur grafist undir rústum bygginga eftir jarðskjálftann á föstudagskvöld.
Sveitirnar eru sérhæfðar í að bregðast við náttúruhamförum svo sem skógareldum, flóðum og jarðskjálftum og hafa meðferðis sérstakan búnað.
Spænsku björgunarsveitirnar hafa meðal annars starfað á Haítí, Nepal og nú síðast í Tyrklandi í febrúar.
Að minnsta kosti 2.100 létust eftir jarðskjálftann og 2.400 eru slasaðir, margir alvarlega.
Bandaríkin og Frakkland eru á meðal ríkja sem hafa heitið Marokkómönnum mannúðaraðstoð.