Urður Egilsdóttir
Einungis fjórir Íslendingar í Marokkó hafa haft samband við utanríkisráðuneytið eftir mannskæða jarðskjálftann á föstudagskvöld. Þetta staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.
Jarðskjálftinn hefur orðið að minnsta kosti 2.100 manns að bana og að minnsta kosti 2.400 slösuðust, margir alvarlega.
Utanríkisráðuneytið hvatti Íslendinga á svæðinu til að láta vita af sér ef aðstoðar væri þörf. Ægir Þór segir það því jákvætt að enginn Íslendingur hafi haft samband í leit að aðstoð.
Samkvæmt vef Þjóðskrá eru 17 Íslendingar búsettir í Marokkó en Ægir Þór segir að þessir fjórir sem höfðu samband hafi verið íslenskir ferðamenn.