„Hér hafa allir misst ástvini“

Frá björgunaraðgerðum í fjallaþorpinu Moulay Brahim í Marokkó.
Frá björgunaraðgerðum í fjallaþorpinu Moulay Brahim í Marokkó. AFP/Fadel Senna

Íbúar í Marokkó syrgja fórnarlömb mannskæðs jarðskjálfta sem reið yfir á föstudagskvöld. Að minnsta kosti 2.012 manns eru látnir en björgunarmenn halda í vonina um að einhverjir finnist á lífi undir rústum fallinna bygginga.

Yfir 2.000 manns eru slasaðir, margir alvarlega.

Skjálftinn, sem mældist 6,8 að stærð, reið yfir um sjötíu kílómetra suðvestur af ferðamannaborginni Marrakesh, og eyðilagði heilu þorpin í hæðum Atlas-fjallgarðsins.

Reyna að ná til þorpanna

Viðbragðsaðilar hafa reynt að komast til afskekktra fjallaþorpa þar sem óttast er að fórnarlömb séu enn föst undir rústum húsa, sem mörg hver voru smíðuð úr leirsteinum.

„Hér hafa allir misst ástvini, hvort sem er í þorpinu okkar eða annars staðar á svæðinu,“ sagði Bouchra, íbúi í fjallaþorpinu Moulay Brahim, og þerraði tárin er hún horfði á menn grafa grafir fyrir fórnarlömb.

Íbúar í Moulay Brahim urðu alvarlega fyrir barðinu á jarðskjálftanum.
Íbúar í Moulay Brahim urðu alvarlega fyrir barðinu á jarðskjálftanum. AFP/Fadel Senna

Eyddu annarri nótt úti

Íbúar í Marrakesh hafa streymt á sjúkrahús til þess að gefa blóð til að hjálpa slösuðum. Margir þeirra eyddu annarri nótt úti á götum undir teppum og með töskur fullar af eigum sínum.

Fatema Satir, íbúi í Marrakesh, sagði að margir hefðu sofið á götunni af ótta við að hús þeirra myndu hrynja.

„Það er engin hjálp fyrir okkur. Það eru sprungur í húsum okkar og sum eru eyðilögð – eins og hús dóttur minnar sem var þurrkað út.“

AFP/Fadel Senna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert