Láta jarðskjálftann ekki eyðileggja ferðina

Frá gömlu miðborginni í Marrakesh.
Frá gömlu miðborginni í Marrakesh. AFP/Philippe Lopez

Gamla miðborg Marrakesh í Marokkó var nærri tóm í dag eftir mannskæða jarðskjálftann á föstudagskvöld. Nokkrir ferðamenn létu það þó ekki stoppa sig er fréttaritari AFP átti leið hjá.

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg í Marokkó og er Marrakesh ein helsta ferðamannaborg landsins. 

Að minnsta kosti 2.100 manns létust í jarðskjálftanum og óttast margir að hann eigi eftir að hægja á ferðamannastrauminum líkt og gerðist er heimsfaraldurinn geisaði. 

„Við ætlum ekki að láta jarðskjálftann eyðileggja allt,“ sagði hinn 35 ára gamli Kirian Ficher frá Þýskalandi við fréttaritara AFP. Hann var í leiðsöguferð um gömlu borgina ásamt þremur öðrum.

„Það voru ekki neinar viðvaranir um mikla hættu svo við héldum okkur við skipulagið.“

Ficher og félögum var gert að rýma hótelherbergi sín er jarðskjálftinn reið yfir klukkan 23.11 að staðartíma á föstudaginn. 

Styðja Marokkómenn að litlu leyti

„Við erum enn óviss hvort við eigum að fara,“ sagði hinn 26 ára gamli Dominik Huber, sem var einn í leiðsöguferðinni.  

„En allt virðist nokkuð hættulaust, og með því að dvelja áfram í landinu erum við að styðja við Marokkómenn að einhverju leyti.“

Leiðsögumaðurinn Abderrazzaq Ouled fullvissaði hópinn um að enn væri hægt að sjá flest allt sem væri á dagskrá ferðarinnar. 

Um 6,5 milljónir ferðamanna hafa heimsótt Marokkó það sem af er ári og um 4,3 milljónir þeirra heimsóttu Marrakesh. 

Jarðskjálftinn sem reið yfir var 6,8 að stærð.
Jarðskjálftinn sem reið yfir var 6,8 að stærð. AFP/Philippe Lopez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert