„Það greip um sig mikil örvænting og hræðsla“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur og formaður jarðvangsins Reykjanes Geopark, er …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur og formaður jarðvangsins Reykjanes Geopark, er staddur í borginni Marrakesh í Marokkó ásamt hópi Íslendinga. mbl.is/Samsett mynd

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur og formaður jarðvangsins Reykjanes Geopark, er staddur í borginni Marrakesh í Marokkó ásamt hópi Íslendinga.

Voru þau stödd á aðaltorginu í gamla miðbænum á föstudaginn er skjálfti af stærðinni 6,8 reið yfir. Að minnsta kosti 2.100 manns eru látin í Marokkó en skjálft­inn varð í Atlas­fjöll­um, 72 kíló­metra suðvest­ur af Marrakesh.

Fannar segir að í kjölfar skjálftans hafi heimamönnum brugðið mjög mikið, enda alls ekki vanir svona skjálftum.

„Það greip um sig mikil örvænting og hræðsla. Fólk hljóp til og frá, grátur og gnístan tanna. Allir þeir sem voru á þessu torgi voru í sjálfu sér óhultir en við vorum nýkomin út úr litlu þröngu verslunargötunum í gamla bænum þegar skjálftinn reið yfir,“ segir Fannar í samtali við mbl.is og útskýrir að í þessum þröngu verslunargötum hafi orðið talsverðar skemmdir.

Sluppu með skrekkinn

Að minnsta kosti 13 manns létust í Marrakesh er lélegar byggingar í þessum þröngu verslunargötum hrundu, sem Íslendingarnir voru nýbúnir að koma sér frá.

„Þeir sem þarna voru voru að fá á sig heilmikið af múrsteinum og alls konar drasli, þannig við erum í sjálfu sér heppin en það voru því miður ekki allir það heppnir,“ segir Fannar.

Flest dauðsföll hafa verið í bæjum í og við Atlasfjöllin.
Flest dauðsföll hafa verið í bæjum í og við Atlasfjöllin. AFP/Fadel Senna

Hann segir andrúmsloftið í Marrakesh vera dauft og að enn sofi fólk úti á bekkjum vegna skemmda eða af ótta.

„Okkar hugur er bara fyrst og fremst hjá þessum mjög stóra hóp sem á um mjög sárt að binda,“ segir Fannar.

Hokið reynslu 

Íslenski hóp­ur­inn er á alþjóðlegri hnatt­rænni jarðvangaráðstefnu UNESCO og er fyr­ir hönd jarðvang­anna Kötlu Geopark og Reykja­nes Geopark. Þegar lútir að málum eins og jarðhræringum er þetta fólk því hokið af reynslu.

Íslenski hópurinn kemur heim á miðvikudaginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert