Björgunarfólk í Marokkó notar sumt hvert berar hendurnar til þess að grafa eftir fólki í rústum jarðskjálftans sem varð að minnsta kosti 2.100 manns að bana á föstudagskvöld. BBC segir frá.
Yfirvöld í Marokkó hafa átt í erfiðleikum með að senda búnað til björgunar til afskekktra þorpa sunnan við borgina Marrakesh. Þar er leitað að fólki í kappi við tímann með berum höndum.
Menntamálráðuneyti Marokkó hefur tímabundið lagt niður kennslu á þeim svæðum sem jarðskjálftarnir urðu.
Að minnsta kosti sjö kennarar hafa látið lífið og 39 aðrir slasast á jarðskjálftasvæðinu. Alls hafa 585 skólar skemmst í skjálftanum.