Bolsonaro í enn einni aðgerðinni

Jair Bolsonaro.
Jair Bolsonaro. Mynd/AFP/

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, er að jafna sig eftir að hafa gengist undir aðgerð sem tengist hnífsstungu sem hann varð fyrir árið 2018. Frá þessu greindu læknar og fjölskylda hans í dag.

Bolsonaro, sem er 68 ára gamall, gekkst undir nokkrar aðgerðir á meltingarvegi og öndunarfærum á einkasjúkrahúsi í Sao Paolo í Brasilíu en forsetinn fyrrverandi hefur átt við fjölmörg heilsufarsleg vandamál að stríða eftir að hafa verið stunginn í kviðinn í kosningarbaráttunni í Brasilíu fyrir fimm árum. Hann gekkst undir margar skurðaðgerðir eftir árásina.

Bolsonaro, sem er yst á hægri væng stjórnmálanna, tapaði fyrir Luiz Inacio Lula da Silva í forsetakosningunum í Brasilíu á síðasta ári. Í kjölfar kosninganna brutust út mikil mótmæli í landinu en stuðningsmenn Bolsonaro ruddust inn í þinghúsið, hæstarétt Brasilíu og forsetahöllina til að mótmæla embættistöku Lula.

„Allt gekk vel. Þökk sé guði og öllum bænunum. Jair er á batavegi,“ skrifar Michelle, eiginkona Bolsonaro, á Instragam-reikning sinn.

Bolsonaro flúði til Flórída í Bandaríkjunum tveimur dögum áður en Lula da Silva tók við forsetaembættinu í byrjun janúar en sneri aftur heim í mars. Bolsonaro stendur frammi fyrir rannsóknum vegna spillingar og misnotkunar í embætti sínu og í júní meinuðu yfirvöld honum að bjóða sig fram til forseta næstu átta árin.

Maðurinn sem stakk Bolsonaro var metinn andlega vanhæfur til að sætta réttarhöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert