Marokkósk yfirvöld hikandi við að þiggja neyðaraðstoð

Marokkósk stjórnvöld virðast hikandi við að taka á móti neyðaraðstoð …
Marokkósk stjórnvöld virðast hikandi við að taka á móti neyðaraðstoð hvaðan sem er. AFP

Marokkósk yfirvöld eru hikandi við að þiggja neyðaraðstoð frá hverjum sem er í kjölfar jarðskjálftans sem hefur kostað yfir 2.600 mannslíf. Stjórnvöld í landinu kveðast ekki vilja valda mögulegri óreiðu í björgunarstörfum. 

Í tilkynningu frá innviðaráðuneyti landsins segir að stjórnvöld hafi þegar þegið aðstoð frá „vinalöndum“ svo sem Spáni, Katar, Bretlandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hika við að þiggja franska aðstoð

Spánn hefur sent leitar- og björgunarsveit ásamt leitarhundum og Bretland hefur sent svipað teymi á vettvang, en spurningar hafa verið uppi um hvers vegna Marokkó virðist ekki vera að flýta sér að þiggja önnur boð um aðstoð.

Franskar björgunarsveitir eru nú í biðstöðu, en samkvæmt fulltrúa frönsku björgunarsamtakana, Secouristes Sans Frontières, hafa þau enn ekki fengið grænt ljós frá marokkóskum yfirvöldum. 

Aðgerðasinnar hafa kallað ákvörðun stjórnvalda óábyrga og ranga.
Aðgerðasinnar hafa kallað ákvörðun stjórnvalda óábyrga og ranga. AFP

Nágrannaland veitir fámenna aðstoð

Samskipti milli Frakka og Marokkó eru afar stirð, meðal annars í kjölfar þess að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur nýverið reynt að byggja upp nánara samband við nágrannaríki Marokkó, Algeríu. 

Norður-Afríkulöndin tvö hafa eldað grátt silfur um nokkurt skeið og slitu diplómatísk tengsl sín á milli fyrir tveimur árum.

Utanríkisráðherra Frakklands, Catherine Colonna, hefur þvertekið fyrir að Marokkó fúlsi við hjálparhönd Frakka og hefur sagt það algeran misskilning.

Óforsvaranlegt að neita aðstoð

Stjórnvöld hafa sagt ósamhæfðar björgunartilraunir hafa gagnstæð áhrif og aðeins valda frekara álagi, en aðgerðasinnar og gagnrýnendur stjórnvalda hafa kallað ákvörðun þeirra óábyrga og ranga.

Segja aðgerðasinnar björgunarsveitir á staðnum þegar úrvinda og vanta ítarlegri búnað og úrræði, sérstaklega á erfiðum og afskekktum svæðum. Það sé því óforsvaranlegt að neita aðstoð af pólitískum ástæðum eða í nafni þjóðarstolts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka