Vill losna við dómarann

Segja lögmenn Trumps þetta gefa til kynna að Chutkan hafi …
Segja lögmenn Trumps þetta gefa til kynna að Chutkan hafi þótt Trump átt frekar rétt á fangelsisvist heldur en sjálf konan sem hún var að dæma á þeim tíma. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lagði fram beiðni fyrr í kvöld þar sem farið er fram á að dómarinn, sem á að stýra réttarhöldum vegna meints samsæris til að ógilda niðurstöður forsetakosninganna 2020, víki úr embætti.

Í beiðninni segja lögmenn Trumps að dómarinn, Tanya Chutkan, eigi að stíga til hliðar vegna ummæla sem hún hefur látið falla í fortíðinni, sem að þeirra mati sýnir fram á að hún geti ekki gætt hlutlægni í réttarhöldunum.

Hefur fordæmt Trump opinberlega

Tóku lögmenn hans sérstaklega fram orð sem Chutkan lét falla í máli konu sem var dæmd í október á síðasta ári fyrir þátttöku sína í árásinni á þinghús Bandaríkjanna. Þar lýsti Chutkan 6. janúar sem „ekkert minna en tilraun til að steypa ríkisstjórninni með ofbeldi“.

Hún bætti svo við, að því er virðist með vísun til Trumps, að árásin væri innblásin af „blindri hollustu við eina manneskju sem, vert er að taka fram, gengur frjáls um til þessa dags“.

Dómarinn metur sjálfur sitt eigið hæfi

Segja lögmenn Trumps þetta gefa til kynna að henni hafi þótt Trump átt frekar rétt á fangelsisvist heldur en sjálf konan sem hún var að dæma á þeim tíma.

„Ummæli hennar benda til þess að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu, áður en þetta mál hófst, að Trump eigi frekar skilið fangelsisvist en sakborningurinn sem hún var að dæma,“ segja lögmenn Trumps.

Í frétt AFP um málið kemur fram að lögfræðingar telji ólíklegt að þessi beiðni Trumps nái fram að ganga í ljósi þess að það væri Chutkan sjálf sem þyrfti sjálfviljug að samþykkja að stíga til hliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert