Ákærð fyrir morðið á 10 ára dóttur sinni

Mynd úr safni. Þremenningarnir voru handteknir á Gatwick flugvellinum í …
Mynd úr safni. Þremenningarnir voru handteknir á Gatwick flugvellinum í Lundúnum. AFP/Daniel Leal

Faðir, stjúpmóðir og frændi tíu ára stúlku sem fannst látin á heimili sínu í Englandi, hafa verið handtekin og ákærð fyrir manndráp.

Var fjölskylda stúlkunnar handtekin á Gatwick-flugvellinum í Lundúnum á miðvikudaginn, en þremenningarnir höfðu flúið til Pakistan eftir að stúlkan lést í síðasta mánuði.

Lík stúlkunnar fannst 10. ágúst á heimili fjölskyldunnar í nágrenni Woking, í suðurhluta Englands. Var stúlkan með fjölmarga og alvarlega áverka er hún fannst.

Lögreglan í Englandi segir að Urfan Sharif faðir stúlkunnar, maki hans Beinash Batool og bróðir hans Faisal Malik, hefðu öll flúið til Pakistan þar sem þau leituðu skjóls hjá ættingjum áður en lík stúlkunnar fannst. 

Þremenningarnir, sem voru eftirlýstir af Interpol, gáfu sig fram og sneru til Bretlands sjálfviljug, að sögn talsmanns pakistönsku lögreglunnar.

Hringdi og lét lögregluna vita

Eins og áður sagði fannst lík stúlkunnar 10. ágúst á heimili fjölskyldunnar. Lögreglan fann líkið eftir að maður, sem kynnti sig sem faðir Söru, hringdi í neyðarlínuna snemma morguns og upplýsti um andlát dóttur sinnar.

Húsið var mannlaust þegar lögreglu bar að garði en fimm systkini Söru, sem eru á aldrinum eins til þrettán ára, voru tekin með til Pakistan og fundust síðar á heimili föður Urfan Sharif á mánudaginn.

Átti erfitt með að bera kennsl á dóttur sína

Olga Sharif, móðir Söru, kvaðst hafa átt í erfiðleikum með að bera kennsl á dóttur sína sökum áverkanna. Í viðtali við pólskan miðil sagði hún að kinnar dóttur sinnar hafi verið bólgnar og að marblettir hefðu verið sjáanlegir á andliti hennar.

Olga og Urfan skildu árið 2015. Höfðu Sara og eldri bróðir hennar átt heima hjá móður sinni fram til ársins 2019 eða þangað til að úrskurður var kveðinn í forsjármáli foreldranna sem kvað á um að börnin skyldu vera hjá föður sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert