Fjáröflun fyrir stúlkur í Amazon-skóginum

Ljósmyndir af börnum með grímur fyrir vitum sér munu vera …
Ljósmyndir af börnum með grímur fyrir vitum sér munu vera sýnilegar víða hérlendis sem hluti af herferð Íslandsdeildar samtakanna. Mynd/Amnesty International/Óttar Guðnasson

Íslandsdeild Amnesty International ýtir í dag úr vör fjáröflunarherferð til styrktar níu stúlkum í Amazon-skóginum í Ekvador. Verkefnið styður stúlkurnar, sem berjast fyrir hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi þar sem þær búa. 

Níu stúlkur á Amazon-svæðinu, úr samfélagi frumbyggja í Ekvador, höfðuðu mál gegn stjórnvöldum í Ekvador. Þær kröfðust lögbanns á gasbruna í nágrenni þeirra á grundvelli rannsóknar sem sýndi aukna tíðni krabbameins.

Úrskurði héraðsdóms ekki framfylgt

 Héraðsdómstóll úrskurðaði þeim í hag á grundvelli þess að réttur þeirra til heilnæms umhverfis væri virtur að vettugi, en í krafti auðæfa og áhrifa hlutaðeigandi aðila hefur úrskurðinum ekki verið framfylgt. Stúlkurnar fóru í kjölfarið með málið fyrir stjórnlagadómstól í Ekvador þar sem málið er yfirstandandi. Ekki er þó víst að jákvæðri niðurstöðu verði framfylgt nema með utanaðkomandi þrýstingi.  

Verkefnið er á vegum Amnesty International á Ameríkusvæðinu og felst stuðningurinn m.a. í frekari rann­sóknum á áhrif gasbruna á heilsu fólks og umhverfið. Einnig verður lögð áhersla á vitund­ar­vakn­ingu og herferðir, innan lands sem utan, til að þrýsta á stjórn­völd í Ekvador.

Gasbrunarnir hafa brunnið áratugum saman á Amazon-svæðinu með tilheyrandi skaða …
Gasbrunarnir hafa brunnið áratugum saman á Amazon-svæðinu með tilheyrandi skaða á umhverfinu og heilsu fólks. credit: UDAPT

Hafa búið við heilsuspillandi gasbruna í áratugi

Gasbruni er notaður við olíuvinnslu til að brenna jarðgas sem er aukaafurð vinnslunnar. Í Amazon-skóginum í Ekvador eru 447 gasbrunar sem brenna allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Þeir hafa brunnið áratugum saman á Amazon-svæðinu með tilheyrandi skaða á umhverfinu og heilsu fólks. Þeim fylgir einnig mikil losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur loftslagsbreytingum.

Ljósmyndaherferð á Íslandi

Ljósmyndir af börnum með grímur fyrir vitum sér munu vera sýnilegar víða hérlendis sem hluti af herferð Íslandsdeildar samtakanna. Myndirnar vísa í skaðleg áhrif mengunar á heilsu fólks vegna olíuframleiðslu, sérstaklega barna.

Hægt er að styðja baráttu stúlknanna á vefsíðu Íslandsdeildarinnar. Öll framlög renna óskert til verkefnisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert