Fulltrúar Rauða krossins í Líbíu eru enn vongóðir um að finna fólk á lífi við rústabjörgun eftir mikil flóð í landinu.
„Vonin er enn til staðar, hún er alltaf til staðar, um að við munum finna fólk á lífi,“ sagði Tamer Ramadan, yfirmaður björgunaraðgerða Rauða kossins í Norður-Afríku.
Þúsundir hafa látið lífið vegna mikilla flóða eftir að stormurinn Daníel gekk á land á sunnudaginn.
Verst er ástandið í borginni Derna sem er á kafi í vatni. Óttast borgarstjórinn að 20 þúsund borgarbúar hafi látið lífið.
Martin Griffiths, yfirmaður neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, sagði umfang hörmunganna í Líbíu eiga eftir að koma í ljós.
Í Líbíu eru tvær stjórnir við völdin. Önnur er í Trípólí, sem er viðurkennd af alþjóðasamfélaginu, en hin er í austurhluta landsins þar sem mesta tjónið hefur átt sér stað.
„Ég held að vandamálið okkar í Líbíu sé auðvitað að starfa í samvinnu við ríkisstjórnina og síðan yfirvaldið í austurhluta landsins,“ sagði Griffiths.