Halda enn í vonina

Fulltrúar Rauða krossins í Líbíu eru enn vongóðir um að finna fólk á lífi við rústabjörgun eftir mikil flóð í landinu.

„Vonin er enn til staðar, hún er alltaf til staðar, um að við munum finna fólk á lífi,“ sagði Tamer Ramadan, yfirmaður björgunaraðgerða Rauða kossins í Norður-Afríku.

Þúsundir hafa látið lífið vegna mikilla flóða eftir að stormurinn Daníel gekk á land á sunnudaginn. 

Verst er ástandið í borg­inni Derna sem er á kafi í vatni. Óttast borgarstjórinn að 20 þúsund borgarbúar hafi látið lífið.

Umfangið eftir að koma í ljós

Martin Griffiths, yfirmaður neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, sagði umfang hörmunganna í Líbíu eiga eftir að koma í ljós.

Í Líb­íu eru tvær stjórn­ir við völd­in. Önnur er í Trípólí, sem er viður­kennd af alþjóðasam­fé­lag­inu, en hin er í aust­ur­hluta lands­ins þar sem mesta tjónið hef­ur átt sér stað.

„Ég held að vandamálið okkar í Líbíu sé auðvitað að starfa í samvinnu við ríkisstjórnina og síðan yfirvaldið í austurhluta landsins,“ sagði Griffiths.

Óljóst er hversu margir hafa látið lífið í flóðunum.
Óljóst er hversu margir hafa látið lífið í flóðunum. AFP/Abdullah Doma
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert