Íran gerir fangaskipti við Bandaríkin

Áætlað er að fangaskipti milli Íran og Bandaríkjanna fari fram …
Áætlað er að fangaskipti milli Íran og Bandaríkjanna fari fram í dag. Mynd úr safni. AFP

Stjórnvöld í Íran vonast til að fangaskipti við Bandaríkin gangi í gegn síðar í dag.

Löndin tvö gerðu samning sín á milli í vikunni um að bandarísk stjórnvöld myndu sleppa fimm írönskum föngum, gegn því að Íran myndi sleppa fimm bandarískum föngum. 

Sex milljarðar frystir í Suður-Kóreu

Írönsku föngunum verður sleppt úr haldi gegn því að sex milljarðar bandaríkjadala, eða um 816 milljarðar kr., verði millifærðir á bankabók í Katar.

Fjármagnið tilheyrir Íran og var ætlað til mannúðarstarfa í Katar en bandamenn Bandaríkjanna, Suður-Kórea, frysti fjármagnið.  

Njósnir, refsiaðgerðir og tengsl við öryggissveitir

Bandarísku fangarnir í Íran eru bæði íranskir og bandarískir ríkisborgarar en Íran samþykkir ekki tvöfaldan ríkisborgararétt. Tveir fanganna hafa óskað þess að sæta nafnleynd en hinir þrír eru þeir Siamak Namazi, Emad Sharqi og Morad Tahbaz. Namazi var fangelsaður fyrir meintar njósnir árið 2015. 

Írönsku fangarnir eru Reza Sarhangpour, Kambiz Attar Kashani, Kaveh Lotfolah Afrasiabi, Mehrdad Moein Ansari og Amin Hasanzadeh. Tveir þeirra munu halda aftur til Íran er þeim verður sleppt úr haldi, einn heldur til annars lands og hinir tveir verða eftir í Bandaríkjunum. 

Ásakanir gegn írönsku föngunum voru meðal annars njósnir, brot á refsiaðgerðum og tengsl við íranskar öryggissveitir. 

Miðlað í gegnum önnur ríki 

Samningaviðræðum var miðlað í gegnum önnur Persaflóaríki þar sem Íran og Bandaríkin hafa slitið diplómatískum tengslum.

Tilkynningin um fangaskiptin var gefin út í dag, sama dag og Íransforseti, Ebrahim Raisi, flýgur til Bandaríkjanna til að sækja fund Sameinuðu þjóðanna í New York. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert