Sænska lögreglan kveður landið ekki hafa verið hættulegra síðan árið 1945 þegar litið er til tíðra skotárása, manndrápa og annars ofbeldis. Fjöldi tilvika hefur komið upp í mörgum borgum og bæjum landsins en maður var skotinn til bana í Vällingby í Vestur-Stokkhólmi á laugardagskvöld og í gær varð sprenging við einbýlishús í Nyköping.
Jale Poljarevius, lögreglustjóri í Mið-Svíþjóð, kveðst hafa þungar áhyggjur af þróun mála. Sagði hann við sænska útvarpið SVT í gær að unglingar sem enga reynslu hafi af meðferð skotvopna séu fengnir til að drepa fólk eftir pöntun. Þessu fylgi mikil hætta á að annað fólk en sá sem er skotmarkið verði fyrir skotum.
Kveður hann það mjög ískyggilega þróun að stjórnendur gengja eða glæpahópa notfæri sér unglinga til að fremja afbrot sem svo taka á sig refsinguna. Nefnir hann á fjórða tug mála þar sem grunaðir gerendur eru fjórtán ára eða yngri.
„Unglingar eru notaðir vegna þess að menn vita að í Svíþjóð býður kerfið ekki upp á annað en vægar refsingar fyrir þann aldurshóp þegar um alvarleg brot er að ræða. Þú getur drepið einhvern og svo færðu tveggja, þriggja eða í mesta lagi fjögurra ára fangelsi. Þú færð ekki meira,“ segir Poljarevius um afbrotamenn undir lögaldri.
Í gær og í nótt var fjöldi ofbeldisbrota framinn í Suður-Svíþjóð sem nú eru í rannsókn, var þar meðal annars um tilraunir til manndráps að ræða.
Einkum þykir glæpaklíkan Foxtrot ganga hart fram í að laða til sín unglinga allt niður í fjórtán ára og fá þeim skotvopn í hendur en stjórnandi Foxtrot er Rawa Majid, einnig þekktur sem kúrdíski refurinn, sem þó býr ekki í Svíþjóð, refurinn flutti til Tyrklands og fjarstýrir gengi sínu þaðan. Hann er eftirlýstur alþjóðlega fyrir fíkniefnabrot og að leggja á ráðin um manndráp. Foxtrot á í miklum útistöðum við Dalen-klíkuna svokölluðu.
Fyrir rúmri viku var móðir félaga í glæpagengi, kona á sjötugsaldri, myrt á heimili sínu í Uppsala og segir lögregla það færast í vöxt að aðstandendur brotamanna verði skotmörk andstæðinga þeirra úr öðrum glæpagengjum. Fyrir tæpri viku var rúmlega tvítugur maður skotinn til bana í stigagangi fjölbýlishúss en hann var nágranni félaga í glæpagengi.
Í nótt var mörgum skotum skotið að íbúð í Handen, suður af Stokkhólmi. Í íbúðinni var hópur fólks en engan sakaði þó. Þá fannst tvítugur maður þungt haldinn í skóglendi í Bergsjöen í Gautaborg í gærkvöldi. Bar hann alvarlega áverka sem drógu hann til dauða skömmu eftir að hann fannst og var hann úrskurðaður látinn á sjúkrahúsinu.
SVT-II (skotárás í Nordköping)