Loftslagsváin „opnað gáttina til helvítis“

Antonio Guterres á ráðstefnunni fyrr í dag.
Antonio Guterres á ráðstefnunni fyrr í dag. AFP/Bryan R. Smith

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að fíkn leiðtoga heimsins í jarðefnaeldsneyti hafi „opnað gáttina til helvítis”.

Þetta kom fram í opnunarávarpi Guterres á loftslagsráðstefnu þar sem fulltrúar Kína og Bandaríkjanna, sem menga mest í heiminum, voru fjarverandi.

Þrátt fyrir sífellt meiri öfga í veðurfari og hvert metið á fætur öðru þegar kemur að hitastigi hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda haldið áfram að aukast, á sama tíma og olíu- og gasfyrirtæki skila miklum hagnaði.

Guterres hefur heitið því að „ekkert múður” verður við lýði á „Ráðstefnu metnaðar í loftslagsmálum” sem fer fram í New York. Leiðtogar eiga að tilkynna nákvæmlega hvaða aðgerðir þarf að ráðast í til að tækla loftslagsvandann með hliðsjón af Parísarsáttmálanum.

Heimur með hreinu lofti enn mögulegur

Í ræðu sinni sagði hann að á þessu ári hafi verið „hryllilegur hiti” og „sögulegir eldar” en bætti við: „Framtíðin er ekki meitluð í stein. Leiðtogar eins og þið eigið að skrifa hana,” sagði hann.

„Við getum enn takmarkað hækkun hitastigs jarðar við 1,5 gráður. Við getum enn búið til heim með hreinu lofti, grænum störfum og hreinni orku á viðráðanlegu verði fyrir alla.”

Guterres tók fram að á ráðstefnunni mættu aðeins stíga í pontu þeir leiðtogar sem hefðu búið til skýrar áætlanir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert