Pólland hættir að senda vopn til Úkraínu

Pólland mun ekki lengur senda vopn til Úkraínu til að …
Pólland mun ekki lengur senda vopn til Úkraínu til að einbeita sér að eigin vörnum. AFP/Emmanuel Dunand

Pólland mun ekki lengur senda vopn til Úkraínu til að einbeita sér að eigin vörnum. Þetta segir Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.

Sagði hann þetta í viðtali aðeins nokkrum klukkustundum eftir að stjórnvöld í Varsjá kölluðu sendiherra Úkraínu á fund sinn vegna deilna um kornútflutning.

„Við erum ekki lengur að flytja vopn til Úkraínu vegna þess að við erum núna að vopna Pólland með nútímalegri vopnum,“ sagði Morawiecki í svari við spurningu blaðamanns um hvort að Pólland myndi halda áfram að styðja Úkraínu þrátt fyrir ágreining um kornútflutning.

Pólland hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands inn í Úkraínu og hefur hingað til verið öflugur vopnabirgir fyrir úkraínska herinn. Pólland hýsir einnig um eina milljón úkraínskra flóttamanna.

Vaxandi spenna

Spennan milli stjórnvalda í Póllandi og Úkraínu, sem stafar af banni Póllands við innflutningi á úkraínsku korni til að vernda hagsmuni bænda, hefur magnast undanfarna daga.

Evrópusambandið tilkynnti í síðustu viku að það ætlaði að binda enda á tímabundnar takmarkanir á innflutningi á úkraínsku korni til fimm landa, þar á meðal Póllands. En stjórnvöld í Póllandi sögðust ætla að halda áfram að framfylgja banninu einhliða, þvert á óskir úkraínskra stjórnvalda.

Catherina Colonna, utanríkisráðherra Frakklands, sagði fyrr í dag að ákvörðun Póllands um að banna korninnflutning frá Úkraínu væri óréttlætanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert