Vladimír Pútín Rússlandsforseti kveðst vona að friðsamleg lausn verði fundin á deilum aðskilnaðarsinna Nagornó-Karabak-héraðsins og Aserbaídsjan. Forsetinn minntist ekki orði á vopnahlé sem báðar hliðar féllust á fyrr í dag.
„Ég vona að við getum dregið úr átökunum og fundið lausnir til að finna friðsamlegri farveg,“ sagði Pútín á fundi við utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, í dag. Sagði Pútín að Rússland væri í nánum samskiptum við báðar fylkingar.
Enn er óljóst hvort myndefni sem var sent út í ríkissjónvarpi Rússlands frá átökunum hafi verið tekið upp fyrir eða eftir að báðar hliðar féllust á vopnahlé.
Dimítrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvadla, kvaðst ekki getað tjáð sig um vopnahléssamkomulagið.
„Ég hef ekki enn fengið þær upplýsingar,“ sagði hann við fréttamenn á daglegum blaðamannafundi.
Rússar hafa sinnt friðargæslu í landinu síðan 2020, en Aserbaídsjan og sjálfskipuð stjórn aðskilnaðarsinnaðra Armena hafa eldað grátt silfur í áraraðir, en héraðið er landlukt innan landamæra Aserbaídsjan þrátt fyrir að stærsti íbúahópur héraðsins séu Armenar.
Stjórn aðskilnaðarsinnana og yfirvöld Aserbaídsjan tilkynntu í morgun að báðar hliðar hefðu fallist á vopnahlé og að viðræður um sameiningu svæðisins við Aserbaídsjan hefðust á morgun.