Alþjóðlega fólksflutningastofnunin, IOM, segir að um 43.000 manns hafi misst heimili sín í flóðunum sem urðu í Líbíu. Mörg þúsund manns létu lífið af völdum flóðanna í borginni Derna.
Gríðarstór flóðbylgja reið yfir eftir að tvær gamlar stíflur brustu skammt frá borginni. Þetta gerðist í kjölfar mikillar úrkomu sem varð 10. september. Heilu hverfin þurrkuðust út og þúsundir íbúa hurfu í Miðjarðarhafið.
Samkvæmt opinberum tölum hafa ríflega 3.300 látið lífið. Allt bendir þó til þess að tala látinna eigi eftir að hækka umtalsvert. Alþjóðleg hjálparsamtök á svæðinu telja að um 10.000 manns sé enn saknað.
Aðstæður eru mjög erfiðar og er brýn þörf á matvælum, hreinu drykkjarvatni auk sálræns stuðnings.
Síma- og netsamband komst aftur á í dag eftir að hafa legið niðri í tvo daga. Mikil mótmæli urðu á mánudag, þar sem reiðir íbúar benda á stjórnvöld og saka þau um að bera ábyrgð á því að svo margir fórust í hamförunum.
Fyrr í vikunni vöruðu Sameinuðu þjóðirnar við því að sjúkdómar gætu breiðst hratt út og þá myndi önnur bylgja hamfara ríða yfir svæðið.