Aserar lýsa yfir yfirráðum í Nagornó-Karbarak

Forseti Aserbaídsjan, Ilham Aliyev, hefur lýst yfir fullum sigri gegn aðskilnaðarsinnastjórn Armena í Nagornó-Karbarak-héraðinu, sem er landlukt í Aserbaídsjan. Samningsviðræður milli aðilana tveggja fóru fram í borginni Jevlakh í morgun. 

Ekki liggur fyrir hvað kom fram á fundinum. 

Viðræður á milli sendinefndar Aserbaídsjan og fulltrúa armensku aðskilnaðarstjórnarinnar í …
Viðræður á milli sendinefndar Aserbaídsjan og fulltrúa armensku aðskilnaðarstjórnarinnar í Nagornó-Karbarak. AFP

Átök hófust á þriðjudag, en héraðið er alþjóðlega viðurkennt sem yfirráðasvæði Aserbaídsjan, þrátt fyrir áralangar deilur við Armena, en um 120.000 Armenar búa í héraðinu. Samið var um vopnahlé í gær og féllust armensku-aðskilnaðarsinnarnir á viðræður um sameiningu héraðsins við Aserbaídsjan. 

Forseti Aserbaídsjan hefur lagt mikla áherslu á að ná fullri stjórn yfir héraðinu en ekki er það í fyrsta sinn sem til átaka kemur um héraðið. Deilur hófust strax og Aser­ar og Armen­ar lýstu yfir sjálf­stæði frá Sov­ét­ríkj­un­um í upp­hafi tí­unda ára­tug­ar­ins, en síðast kom til átaka árið 2020. 

Segja Asera hafa brotið vopnahlé

Ekki liggur fyrir hve margir hafa fallið í átökunum í vikunni en armensk yfirvöld hafa sagt að 32 séu látnir, þar af sjö óbreyttir borgarar, og minnst 200 særðir. Mannréttindafulltrúi armensku aðskilnaðarsinna-stjórnarinnar hefur hins vegar fullyrt að yfir 200 hafi látist og að minnst 400 séu særðir.

Á miðvikudagskvöld sökuðu armenskir embættismenn Aserbaídsjan um að hafa skotið á hermenn nálægt bænum Sotk á landamærum landanna tveggja og þar með brotið gegn vopnahléi sem um hafði verið samið, en asersk yfirvöld hafa neitað allri sök.

Mótmæla forsætisráðherra Armeníu

Þúsundir mótmælenda héldu á götur Jerevan, höfuðborgar Armeníu, í gær til að krefjast afsagnar Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, vegna ákvarðana hans í málinu. Viðræður fara fram á milli beggja hliða í dag og verður sameining héraðsins við Aserbaídsjan meðal annars til umræðu. 

Í maí síðastliðnum kvaðst Pashinyan reiðubúinn til að viðurkenna héraðið sem hluta af Aserbaídsjan gegn öryggi armenska þjóðernishópsins sem þar er búsettur. 

Armenski sendiherrann, Andranik Hovhannisyan, ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðunum í Genevru í dag og sagði framgang Asera gegn Armenum vera þjóðarmorð og mannréttindaglæp. 

Sendiherra Aserbaídsjan, Dilara Abdullayeva, ítrekaði í ávarpi sínu við mannréttindaráðið að Aserar hefðu verið tilneyddir að vinna geng hryðjuverkasamtökum sem hefðu tekið sér völd í héraðinu og hefðu einungis miðað ásókn sinni á ólöglegar hersveitir. 

Mótmælendur í Jerevan í Armeníu.
Mótmælendur í Jerevan í Armeníu. AFP

Pútín ekki parsáttur með Pashinyan 

Rússland hefur sinnt friðargæslu í landinu síðan 2020 og er milligöngumaður í sáttarsamningum landanna tveggja. Rússar hafa þó hlotið gagnrýni frá Armenum fyrir að hafa haldið að sér höndum í átökunum. Rússar eru í varnarbandalagi með Armenum, en þar sem héraðið er viðurkennt sem hluti af Aserbaídsjan er héraðið ekki hlut af samningnum. 

Einnig er talið að Pútín sé ekki parsáttur með armenska forsætisráðherrann, sem virðist snúa sér meira og meira til vesturs. Armenskir hermenn iðkuðu æfingar með bandarískum hermönnum í vikunni og eiginkona forsætisráðherrans Anna Hakobyan tók í hönd Volodimír Selenskí, Úkraínuforseta á ráðstefnu í Kænugarði fyrr í mánuðinum.

Pútín hefur hvatt forseta Aserbaídsjan til að tryggja öryggi og réttindi Armenska-þjóðernishópsins í héraðinu. Friðargæslusveitir Rússa rýmdu í gær heimili í héraðinu á meðan á átökunum stóð. Varnarmálaráðuneyti landsins, birti myndskeið sem sýnir Armena úr héraðinu í herstöðvum Rússa, en ekki er vitað hvenær myndskeiðin voru tekin upp. 

Rússar hafa birt myndefni af Armenum úr héraðinu, sem fluttir …
Rússar hafa birt myndefni af Armenum úr héraðinu, sem fluttir voru í herstöðvar Rússa vegna átakanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert