Erfiður vetur blasir við Úkraínumönnum

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er nú staddur í Bandaríkjunum þar sem …
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er nú staddur í Bandaríkjunum þar sem hann óskar eftir auknum stuðningi. AFP

Úkraínsk stjórnvöld lýsa áhyggjum af erfiðum vetri, sem blasi við í kjölfar þess að þrír létu lífið í rússneskri flugskeytahríð í sunnanverðri Úkraínu og fleiri slösuðust víða í landinu. Árásin olli einnig skemmdum á orkuinnviðum landsins.

Úkraína býr sig nú undir sinn þriðja vetur í stríðinu við Rússland, sem hófst með innrás Rússa fyrir 19 mánuðum. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er nú staddur í Washington, til þess að óska eftir auknum stuðningi Bandaríkjanna.

„Flest flugskeyti voru skotin niður. En bara meirihlutinn. Ekki öll,“ sagði Selenskí í ávarpi til bandamanna, þar sem hann óskaði eftir fleiri loftvarnarvopnum.

Árásin átti sér stað stuttu eftir að Pólland tilkynnti að landið myndi upp­fylla þegar und­ir­ritaða samn­inga um vopna­flutn­inga, aðeins degi eft­ir að stjórn­völd í Var­sjá til­kynntu að þau myndu hætta að senda vopn til Úkraínu.

Flugskeyti lentu víðsvegar um landið

Rússar skutu á svæði víða um Úkraínu og skeytin lentu á borgumum Rívne í vestanverðri Úkraínu, Kerson í sunnanverðu landinu – þar sem þrír létust –, Kænugarði og ýmsum borgum í miðju og norðaustanverðu landinu.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa einnig sagt að rafmagni hafi slegið út víða í landinu, eða í tæplega 400 borgum. Telja stjórnvöld að óvinir þeirra að austan hafi verið að miða á orkuinnviði landsins en þó sé of snemmt að segja til um hvort árásin sé hluti af nýrri hernaðaráætlun Rússa.

„Það eru erfiðir mánuðir framundan. Rússland mun ráðast á orkuinnviði og fleiri mikilvæga innviði landsins,“ sagði Óleksiy Kúleba, yfirmaður stjórnarskrifstofu Úkraínuforseta við blaðamenn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert