Ungar stúlkur fengu sendar nektarmyndir af sjálfum sér

Notast er við app til að breyta myndum af ungmennunum. …
Notast er við app til að breyta myndum af ungmennunum. Mynd úr safni.

Rúm­lega 20 spænsk­ar stúlk­ur hafa til­kynnt lög­reglu að þær hafi fengið send­ar nekt­ar­mynd­ir af því sem lít­ur út fyr­ir að vera þær sjálf­ar. Sú er þó ekki raun­in því mynd­un­um hef­ur verið breytt með hjálp gervi­greind­arapps.

Sam­kvæmt því sem fram kem­ur í máli lög­reglu­yf­ir­valda á Spáni voru mynd­ir tekn­ar af sam­fé­lags­miðlareikn­ing­um stúlkn­anna. Þar voru þær full­klædd­ar en mynd­un­um svo breytt og deilt áfram á What­sapp-skila­boðafor­rit­inu.

Örvænt­inga­full­ir for­eldr­ar 

For­eldr­ar stúlkn­anna eru sagðir ör­vænt­ing­ar­full­ir og hafa sum­ir þeirra leitað til sak­sókn­ara til að fá svör við þeirri spurn­ingu hvort lög hafi verið brot­in með dreif­ingu mynd­anna. 

„Mynd­irn­ar líta mjög raun­veru­lega út,“ er haft eft­ir móður einn­ar stúlk­unn­ar. Fórn­ar­lömb­in eru flest á ung­lings­aldri. Yngsta stúlk­an sem hef­ur orðið fyr­ir barðinu á þess­ari óværu er 11 ára göm­ul.

Fá­tíma Gomes, móðir eins barns­ins, sagði að óprútt­inn dreng­ur hefði reynt að beita dótt­ur henn­ar fjár­kúg­un. Þegar hún neitaði að greiða sendi hann henni mynd af henni sem hafði verið breytt í gervi­greind­arapp­inu.

Þó ekki sé um raun­veru­lega nekt að ræða hef­ur málið valdið stúlk­un­um miklu hug­ar­angri. „Þið vitið ekki hvaða skaða þið hafið valdið,“ er haft eft­ir móður einn­ar stúlk­unn­ar.

Kost­ar 10-25 evr­ur að fá nekt­ar­mynd 

Rík­is­lög­regl­an á Spáni hef­ur málið til rann­sókn­ar. Þegar hafa nokkr­ir dreng­ir verið yf­ir­heyrðir vegna máls­ins. Sér­stakt app hef­ur verið notað til þess að breyta mynd­un­um og get­ur hver sem er nálg­ast það. Kostnaður við að svipta fólk klæðum á mynd­un­um er 10-25 evr­ur.

Fjöl­marg­ar spurn­ing­ar hafa vaknað sem lag­anna arm­ur þarf að svara. Ein er sú hvort yfir höfuð sé um ólög­legt at­hæfi sé að ræða hjá þeim sem kaupa slík­ar fals­mynd­ir eða hafa þær í sín­um fór­um.

Manu­el Cancio, laga­pró­fess­or í refsirétti í Madríd, seg­ir málið snúið því lög­in séu skrefi á eft­ir tækn­inni. Þó vissu­lega sé ólög­legt að eiga og birta nekt­ar­mynd­ir af ung­menn­um þá breyti það stöðunni þegar ein­göngu er notaður hluti af mynd, t.a.m. and­lit, en rest­in af mynd­inni er tölvu­gerð.

„Þar sem um er að ræða djúp­föls­un (deep fake) er ekki endi­lega hægt að segja að um sé að ræða brot á friðhelgi einka­lífs,“ seg­ir Cancio.

Hver eru brot­in? 

Hitt laga­lega úr­lausn­ar­efnið snýr að því hvort hægt sé að tala um dreif­ingu á barnaklámi. Deild­ar mein­ing­ar eru um þenn­an hluta máls­ins.

Sum­ir sér­fræðing­ar segja að svo lengi sem and­litið þekk­ist eigi sömu viður­lög að eiga við um þá sem eiga eða dreifa slík­um mynd­um og þá sem eiga eða dreifa barnaklámi. Viður­lög­in við því eru 5-9 ára fang­elsi sam­kvæmt spænsk­um lög­um. 

Aðrir laga­sér­fræðing­ar segja að um sé að ræða blygðun­ar­sem­is­brot. Viður­lög­in við slíku broti eru allt að tveggja ára fang­elsi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert