Armenar flýja eftir hernaðaraðgerðirnar

Armenskir flóttamenn eru byrjaðir að yfirgefa héraðið Nagorno-Kara­bakh eftir hernaðaraðgerðir Aserbaídsjan á svæðinu. 

Nagorno-Kara­bakh hefur verið undir stjórn Armena en alþjóðasam­fé­lagið viður­kenn­ir héraðið sem hluta af Aser­baíd­sj­an. Ófriðurinn sem ríkir þar núna gæti bundið enda á þrjátíu ára gömul átök.

Hernaðaraðgerðum Aserbaídsjan lauk á miðvikudag er armenskir aðskilnaðarsinnar samþykktu vopnahlé. 

„Höfðum 15 mínútur til að pakka öllu saman“

„Í gær þurftum við að láta niður rifflana. Svo við fórum,“ sagði maður á fertugsaldri frá þorpinu Mets Shen í samtali við fréttaritara AFP. Maðurinn var ásamt öðrum á leið yfir landamærin til Armeníu. 

„Við höfðum 15 mínútur til að pakka öllu saman,“ sagði maðurinn og bætti við að hann hafi þurft að skilja búfénað sinn og gröf dóttur sinnar eftir í Mets Shen. „Ég gat ekki kvatt hana. Ég vona að ég komi aftur.“

Samkvæmt armenskum stjórnvöldum höfðu 377 armenskir flóttamenn farið yfir landamærin frá því að átökunum lauk. Flestir sem fréttaritari AFP sá í dag voru konur og börn.

Leiðtogar aðskilnaðarsinna segjast vera vinna að samkomulagi við yfirvöld í Aserbaídsjan með milligöngu Rússa um örlög þeirra 120 þúsund Armena sem búa í Nagorno-Kara­bakh. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert