Einn lögreglumaður var myrtur og annar særðist í skotárás í norðurhluta Kósovó, skammt frá landamærunum að Serbíu, í nótt. Albin Kurti, forsætisráðherra Kósovó, kennir serbneskum glæpahópum um verknaðinn.
Skotárásin átti sér stað klukkan þrjú að staðartíma í nótt þegar lögreglumenn voru í eftirlitsferð vegna tilkynningar um vegartálma nærri landamærunum. Ráðist var á lögreglumennina úr ýmsum áttum með bæði skotvopnum og sprengjum.
Átök milli árásarmannanna og lögregluyfirvalda í norðurhluta Kósovó stóðu enn yfir nokkrum klukkustundum eftir að lögreglumaðurinn lést, að sögn Albin Kurti, forsætisráðherra Kósovó.
Kurti sagði að tekist hefði að umkringja að minnsta kosti 30 vopnaða menn nálægt þorpinu Banjska og kallaði eftir að þeir myndu gefast upp.
Kurti hefur sakað Serba um að styðja við það sem hann kallar „hryðjuverkaárás“.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, hefur fordæmt árásina. „Allar staðreyndir um árásina þurfa að liggja fyrir. Ábyrgir gerendur verða að mæta réttlætinu,“ sagði hann í yfirlýsingu í dag.
Mikil spenna hefur verið milli Serbíu og Kósovó frá því að stríðinu á Balkanskaga lauk fyrir rúmlega 20 árum. Kósovó lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008. Serbar í Kósovó, sérstaklega í norðri, hafa hafnað sjálfstæði Kósovó frá Serbíu.