Handtaka embættismenn vegna flóðanna

Að minnsta kosti 3.300 manns hafa látið lífið í kjölfar …
Að minnsta kosti 3.300 manns hafa látið lífið í kjölfar flóðanna. AFP/Ozan Kose

Ríkissaksóknari í Líbíu hefur gefið út handtökuskipun á hendur átta embættismönnum í landinu vegna rannsóknar á flóðunum 10. september. Talið er að vanræksla á tveimur stíflum hafi spilað stórt hlutverk í hamförunum.

Gríðar­stór flóðbylgja reið yfir borgina Derna eft­ir að tvær gaml­ar stífl­ur brustu skammt frá borg­inni í kjöl­far mik­ill­ar úr­komu sem varð 10. sept­em­ber. Heilu hverf­in þurrkuðust út og þúsund­ir íbúa hurfu í Miðjarðar­hafið. 

Embættismennirnir átta eru grunaðir um „slæma stjórnun“ og vanrækslu, að því er segir í tilkynningu frá saksóknara en þeir hafa unnið hjá eða vinna enn í stofnunum sem bera ábyrgð á vatnsauðlindum og umsjón stíflna.

Stíflurnar skemmdar frá árinu 1998

Al-Seddik al-Sur, ríkissaksóknari Líbíu, sagði fyrir viku að stíflurnar tvær hefðu verið skemmdar frá því árið 1998.

Viðgerð hófst árið 2010 en var frestað í byltingunni í landinu árið 2011. Viðgerð hófst hins vegar aldrei aftur.

Í nóvember í fyrra varaði verkfræðingurinn Abdel Wanis Ashour við því að „hamfarir“ gætu orðið í Derna ef yfirvöld myndu ekki lagfæra stíflurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert