Segja þúsundir manna á götum úti án matar

Þúsundir armenskra íbúa í Nagornó-Karabark-héraðinu flýja svæðið eftir að Aserar lýstu yfir full­um sigri gegn aðskilnaðarsinna­stjórn Armena í héraðinu.

Fleiri en 6.500 manns hafa þegar haldið yfir til Armeníu eftir að stjórnvöld þar í landi tilkynntu að þau hygðust flytja þá sem hefðu misst heimili sín í átökunum.  

Flóttafólk í héraðinu tjáði BBC að þau teldu sig ekki örugg undir yfirráðum Asera.

Þúsundir á götum úti

Armenski forsetinn, Nikol Pashinyan, segir um tilraun til þjóðarhreinsunar að ræða, en yfirvöld í Aserbaídsjan hafa ítrekað að þau hyggist koma fram við Armena úr héraðinu sem jafna samborgara. 

Þrátt fyrir fullyrðingu Aserbaídsjan eru efasemdir uppi um vægi orða þeirra, en aðeins einni hjálparsendingu hefur verið hleypt inn í héraðið eftir að aðskilnaðarsinnar samþykktu að afvopnast. Aðskilnaðarsinnar segja þúsundir manna á götum úti án matar í kjölfar átakanna. 

Fleiri en 6.500 hafa þegar flúið og er búist við …
Fleiri en 6.500 hafa þegar flúið og er búist við því að fleiri fylgi á hæla þeirra. AFP

Taka á móti 40.000 manns

Armensk stjórnvöld sögðu í yfirlýsingu á sunnudag að hundruð flóttamanna hefðu þegar fengið húsnæði á vegum armenska ríkisins.

Ekki hafa stjórnvöld þó gefið upp skýra áætlun um hvernig landið muni takast á við skyndilegt og stórt innstreymi fólks. Forsætisráðherra segir landið hyggja á að taka á móti 40.000 flóttamönnum.

Ekki í fyrsta sinn sem kemur til átaka

Um 120.000 Armen­ar búa í héraðinu, sem er landlukt í Aserbaídsjan og er alþjóðlega viðurkennt sem hluti af landinu. Átök hófust um yfirráð á svæðinu í síðustu viku, en var fljótlega samið um vopnahlé og féllst aðskilnaðarstjórnin á samningsviðræður við Asera.

Ekki er það í fyrsta sinn sem til átaka kem­ur um héraðið. Deil­ur hóf­ust strax og Aser­ar og Armen­ar lýstu yfir sjálf­stæði frá Sov­ét­ríkj­un­um í upp­hafi tí­unda ára­tug­ar­ins, en síðast kom til átaka árið 2020. 

Minnst 200 Armenar og um 20 Aserar létust í átökunum ásamt fimm rússneskum friðargæsluliðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert