Trump blekkti banka og fjárfesta

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, gerðist sekur um fjársvik er hann lagði ítrekað fram fölsuð gögn þar sem virði eigna hans var stórlega ofmetið, eða sem nemur um 3,6 milljörðum dala (sem samsvarar um 492 milljörðum kr).

Þetta er niðurstaða dómara í New York-ríki. 

Segir dómarinn, Arthur Engoron, að Trump hafi gert þetta í þeim tilgangi að blekkja banka og tryggingafélög, til þess m.a. að knýja fram hagstæðari lán og tryggingar.

Í niðurstöðunni segir að fyrirtæki Trump hafi yfir margra ára skeið blekkt banka, tryggingafélög og aðra með því að ofmeta og blása upp eignir sínar á skjölum sem notuð voru við samningaviðræður og í viðræðum við fjárfesta. 

Í kjölfar málsins hefur Engoron fyrirskipað afturköllun sumra viðskiptaleyfa Trumps í refsingarskyni, en sú fyrirskipun gerir fyrirtækjunum nánast ómögulegt að stunda viðskipti í New York. 

Þá sagðist dómarinn ætla að halda áfram að fela óháðum eftirlitsmanni umsjón með starfsemi Trump-samtakanna.

Málið þykir vera högg fyrir Trump sem þarf að svara til saka í einkamáli sem dómsmálaráðherra New York-ríkis höfðaði á hendur honum. En aðalmeðferð í því máli hefst á mánudag. 

Letitia James, dómsmálaráðherra New York, hefur sakað Trump, og tvo elstu syni hans, um fjársvik sem fyrr segir. 

Verjendur Trumps fóru fram á það við dómarann að vísa málinu frá áður en til réttarhalda kæmi með sérstökum úrskurði. Dómsmálaráðherrann vildi aftur á móti fá það á hreint hvort Trump væri ábyrgur gjörða sinna og tók dómarinn afstöðu með málflutningi dómsmálaráðherrans. 

James fer fram á að Trump greiði 250 milljónir dala í skaðabætur og að Trump og elstu synir hans tveir verði vikið úr fasteignafélagi fjölskyldunnar, Trump Organization. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert