Greiða 31 milljarð í ópíóðasátt

McKinsey & Co þarf að greiða 31 milljarð króna.
McKinsey & Co þarf að greiða 31 milljarð króna. AFP

Ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Co hefur gert samkomulag um að greiða 230 milljónir bandaríkjadala í sátt fyrir að hafa ráðlagt lyfjafyrirtækinu Purdue Pharma við sölu á ópíóðalyfjum.

Upphæðin er með þeim hærri sem samið hefur verið um í málum af þessum toga, en 230 milljónir dala samsvara um 31 milljarði íslenskra króna.

McKinsey er sakað um að hafa átt hlutdeild í því að ópíóðafaraldur varð í Bandaríkjunum og hafa ríkisstjórnir fjölda ríkja í Bandaríkjunum, sveitarfélög skólar, samfélög bandarískra frumbyggja og foreldrar barna sem fæddust með fráhvarfseinkenni höfðað mál gegn ráðgjafafyrirtækinu.

Hagnaður af OxyContin hámarkaður

Ráðgjafafyrirtækið er sakað um að hafa aðstoðað lyfjafyrirtækið Purdue Pharma, sem kom fyrst á markað með verkjalyfið OxyContin, að markaðssetja lyfið til að hámarka hagnað af sölu lyfsins.

Purdue Pharma varð gjaldþrota árið 2019 en fyrirtækið er talið eiga hvað stærstan þátt í því að hrinda ópíóðafaraldri af stað vestanhafs. Ekki er þó búið að dæma í, eða ná sátt um, allar þær málshöfðanir sem lagðar hafa verið fram gegn lyfjarisanum.

McKinsey þarf að greiða ríkinu og sveitarfélögum 207 milljónir bandaríkjadala og opinberum skólum 23 milljónir bandaríkjadala.

75% dauðsfalla rakin til ópíóða

Ópíóðalyf eru meginorsök dauðsfalla af völdum ofskömmtunar í Bandaríkjunum að sögn bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitsins, FDA. Af þeim sem létust af völdum ofskömmtunar í Bandaríkjunum árið 2021 hafði 75% tekið inn ópíóða.

Ráðgjafafyrirtækið greiddi 640 milljónir til að ná samkomulagi í málsóknum árið 2021, þegar ríkissaksóknarar í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna höfðuðu mál vegna vinnu lyfjafyrirtækisins fyrir Purdue Pharma.

Í samkomulaginu sem gert var opinbert í dag segir að McKinsey hafi mótað markaðsaðferðir fyrir Purdue áður en lyfjafyrirtækið viðurkenndi að markaðssetning þess væri misvísandi árið 2007, og eftir það.

Dómari á enn eftir að samþykkja samkomulagið.

Hættu ráðgjöf árið 2019

Lögmenn McKinsey hafa ætíð haldið því fram að vinna þeirra fyrir Purdue Pharma hafi verið lögleg. Fyrirtækið hætti að vinna fyrir lyfjafyrirtæki með ópíóðalyf á markaði árið 2019.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu árið 2020 sagði að stjórnendur hefðu ekki verið meðvitaðir um hversu mikil áhrif ópíóðafaraldurinn hefði á samfélagið. Þess vegna hafi ákvörðun verið tekin um að hætta að vinna fyrir fyrirtæki sem selja slík lyf.

Purdue Pharma var stofnað af Sackler-fjölskyldunni. Þegar fyrirtækið varð gjaldþrota var gerð dómssátt sem kemur í veg fyrir að hægt sé að höfða einkamál gegn fjölskyldunni vegna aðkomu þeirra að ópíóðafaraldrinum.

Hæstiréttur Bandaríkjanna samþykkti í ágúst, að beiðni dómsmálaráðuneytisins, að skoða samkomulagið aftur. Þykir því óvíst hvort áður nefnd vernd yfir fjölskyldunni muni halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert