Dómarinn sem á að stýra réttarhöldum Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fyrir meint samsæri um að reyna hnekkja niðurstöðu forsetakosninganna árið 2020, hafnaði í dag beiðni Trumps um að hún segði sig frá málinu.
Í beiðninni, sem var lögð fram fyrr í mánuðinum, sögðu lögmenn Trumps að dómarinn, Tanya Chutkan, ætti að stíga til hliðar vegna ummæla sem hún hafði látið falla í fortíðinni, sem að þeirra mati sýndi fram á að hún gæti ekki gætt hlutlægni í réttarhöldunum.
Í 20 blaðsíðna áliti Chutkans hafnaði hún beiðninni staðfastlega. En það er hún sem metur sitt eigið hæfi.
„Dómstóllinn hefur aldrei tekið þá afstöðu sem verjandinn lýsir honum: að sækja ætti Trump til saka og fangelsa hann. Og verjandinn nefnir engin dæmi þess að dómstóllinn hafi nokkurn tíma sagt þessi orð eða neitt álíka.“
Chutkan benti á að lagaleg viðmið fyrir dómara til að víkja frá máli væri ef „óhlutdrægni þeirra gæti með sanngjörnum hætti verið dregin í efa“.
Í beiðni sinni tóku lögmenn Trumps sérstaklega fram orð sem Chutkan lét falla í máli konu sem var dæmd í október á síðasta ári fyrir þátttöku sína í árásinni á þinghús Bandaríkjanna. Þar lýsti Chutkan 6. janúar sem „ekkert minna en tilraun til að steypa ríkisstjórninni með ofbeldi“.
Hún bætti svo við, að því er virðist með vísun til Trumps, að árásin væri innblásin af „blindri hollustu við eina manneskju sem, vert er að taka fram, gengur frjáls um til þessa dags“.
Chutkan sagði hins vegar að hún hefði „sérstaklega neitað að dæma um hvort ákæra ætti aðra fyrir hegðun í tengslum við 6. Janúar“ og hefði aldrei mælt með því að aðrir einstaklingar yrðu rannsakaðir eða ákærðir.
„Að stíga til hliðar er ekki réttlætanlegt í þessu tilfelli,“ sagði hún.
Réttarhöld í þessu máli eiga að hefjast 4. mars.