Stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast ætla að vísa bandaríska hermanninum Travis King úr landi. King hefur verið í haldi stjórnvalda síðan hann hljóp yfir landamærin frá Suður-Kóreu til Norður-Kóreu í júlí.
Haft er eftir norðurkóreska ríkismiðlinum KNCA að stjórnvöld hafi lokið rannsókn sinni á ólöglegri komu King í landið.
Ekki kom fram hvernig og hvenær King verði vísað úr landi.
Einn mánuður er síðan stjórnvöld í Norður-Kóreu staðfestu að hinn 23 ára hermaður væri í haldi þeirra.
Samkvæmt fréttaflutningi KNCA gekkst hann við því að hafa komið til Norður-Kóreu ólöglega. Gerði hann það, að því er fram kemur á KCNA, vegna slæmrar framkomu bandaríska hersins, kynþáttafordóma og stéttaskiptingar í bandarísku samfélagi.
King var í hópi ferðamanna með leiðsögumanni í Suður-Kóreu þegar hann ákvað einn síns liðs að hlaupa yfir landamæri Kóreuríkjanna.
Áður hafði King verið í fangelsi í Suður-Kóreu ákærður fyrir líkamsárás. Hann losnaði úr haldi 10. júlí.