Telja upplýsingaóreiðu mesta á X

Rannsókn á vegum Evrópusambandsins segir mesta upplýsingaóreiðu ríkja á samfélagsmiðlinum …
Rannsókn á vegum Evrópusambandsins segir mesta upplýsingaóreiðu ríkja á samfélagsmiðlinum X. AFP/Alain Jocard

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur upplýsingaóreiðu mesta á samfélagsmiðlinum X, áður þekktum sem Twitter. 

Rannsókn á vegum stofnunarinnar skoðaði yfir sex þúsund einstaka færslur á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram, LinkedIn, TikTok, X og YouTube.

Lönd í áhættuhóp notuð í rannsóknina

Voru úrtök rannsóknarinnar tekin í þremur löndum sem ESB telur í sérstökum áhættuhópi hvað varðar upplýsingaóreiðu: Spánn, Slóvakía og Pólland. Eru löndin ýmist talin í áhættuhópi í tengslum við kosningar eða vegna nálægðar við stríðið í Úkraínu. 

Fyrr í mánuðinum sagði ESB samfélagsmiðlafyrirtæki ekki hafa gert nóg til að sporna við upplýsingaóreiðu og áróðri Rússa í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. 

Youtube mældist með lægst hlutfall

Hæsta hlutfall færslna með rangfærslum birtist á miðlinum X. YouTube mældist með lægsta hlutfallið af miðlunum sex.

Rannsóknin var unnin af sprotafyrirtækinu TrustLab, sem hefur eftirlit með upplýsingaóreiðu og rangfærslum sem fylgja starfs- og siðareglum ESB hvað varðar dreifingu rangra upplýsinga og falsfrétta. 

Elon Musk dró aðild miðilsins að siðareglum ESB til baka.
Elon Musk dró aðild miðilsins að siðareglum ESB til baka. AFP/Alain Jocard

Musk vék sér undan siðareglum

X, sem áður hét Twitter, skrifaði undir siðareglurnar, sem eru valkvæðar, ásamt fjölda annarra samfélagsmiðla árið 2018, en drógu til baka undirskrift sína þegar núverandi eigandi fyrirtækisins Elon Musk tók við völdum. 

ESB vinnur nú að bættum lögum um stafræna þjónustu og hyggjast gera frjálsu siðareglurnar lögboðnar. 

Fyrirtæki sem ekki fara að lögunum gætu átt yfir höfði sér sekt sem nemur allt að sex prósent af veltu þeirra á heimsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka