Arkitektinn og grunaði raðmorðinginn, Rex Heuermann, var leiddur fyrir dómara í gær.
Áður en hann gekk út snéri hann sér við og leit yfir réttarsalinn. Það virtist glitta í lítið bros er hann gekk út úr salnum.
Hinn 59 ára gamli Heuermann, sem giftur var hinni íslensku Ásu Ellerup í 27 ár, er ákærður fyrir morð á þremur konum í svo kölluðu „Gilgo Beach“-máli og er grunaður um morð á einni konu til viðbótar. Þá rannsaka yfirvöld hvort Heuermann sé tengdur óleystum morðmálum í Nevada, New Jersey og Suður-Karólínu.
Heuermann stóð uppréttur í réttarhöldunum klæddur í kakí-buxur og jakkafatajakka. Hann var handjárnaður fyrir aftan við bak. Heuermann, sem hefur lýst sig saklausan af ákærunum, sagði dómara aðspurður að hann hafi sjálfur skoðað gögn málsins gegn sér í tvo til þrjá tíma að meðaltali á degi hverjum. Það var það eina sem hann sagði í réttarhöldunum.
Saksóknari segist hafa látið lögmannateymi Heuermann í té yfir tíu terabæti af upplýsingum til yfirferðar í ágúst, þar á meðal stefnur og dómsskjöl sem telja um 8 þúsund blaðsíður. Við bættust um 5 þúsund blaðsíður í gær, minnisbækur lögreglu og upptökur úr eftirlitsmyndavélum.
Gögn munu halda áfram að hrannast upp fram að næstu réttarhöldum, 15. nóvember, er haft eftir saksóknara Suffolk-sýslu.