Samvel Shahramanyan, leiðtogi Nagornó-Karabak, segir að héraðið muni heyra sögunni til í byrjun næsta árs.
Hann greindi frá því í dag að hann hefði skrifað undir tilskipun sem leysir upp allar opinberar stofnanir í Nagornó-Karabak frá og með 1. janúar, að því er breska útvarpið greinir frá.
Héraðið hefur verið undir stjórn Armena undanfarna þrjá áratugi eða þar til Aserar hrifsuðu það til sín í hernaðaraðgerðum í liðinni viku.
Meirihluti íbúa héraðsins eru Armenar og hefur um helmingur þeirra nú lagt á flótta að sögn yfirvalda.
Shahramanyan segir ákvörðunina byggjast á því að með þessu verði öryggi og hagsmunir íbúanna tryggðir. Hann vísaði til samkomulags við Aserbaídsjan um að allir íbúar megi yfirgefa svæðið óhindraðir og af fúsum og frjálsum vilja.
Leiðtoginn hvatti íbúa frá Nagornó-Karabak, m.a. þá sem búa annar staðar sem stendur, til að kynna sér það að aðlagast Aserbaídsjan. Viðræður um aðlögunarferlið á milli yfirvalda í Bakú, sem er höfuðborg Aserbaídsjan, og Karabak eru hafnar.