Áfrýjunardómstóll í New York hefur hafnað beiðni Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að fresta réttarhöldum yfir honum vegna fjársvika og vísað burt kæru hans gegn dómaranum Athur Engoron.
Aðalmeðferð í máli Trumps á að hefjast 2. október næstkomandi en hann áfrýjaði málinu og sagði dómarann Arthur Engoron hafa hunsað fyrri úrskurði áfrýjunarnefndar sem bentu til þess að sumar ásakanir á hendur Trump væru fyrndar.
Samkvæmt Reuters var áfrýjunarnefndin þó ekki á sama máli og Trump og hafnaði kröfu hans í dag. Sögðu þau kröfuna greinilega gerða í þeim tilgangi að fresta málaferlinu og til að fá ásökunum gegn fyrrverandi forsetanum vísað frá.
Letitia James, ríkissaksóknari New York, höfðaði mál á hendur Trump og sona hans, fyrir að hafa stórlega ýkt eigur sínar m.a. til þess að fá hagstæðari lán og tryggingar.
Trump gefur hins vegar lítið fyrir niðurstöðu Engoron og segir dómarann hafa átt að vísa flestum liðum málsins frá.
Engoron, komst að þeirri niðurstöðu á þriðjudaginn að Trump væri ábyrgur fyrir fjársvikunum og hefði ofmetið eignir sínar í þeim tilgangi að blekkja banka og tryggingafélög.
Í ákvörðun sinni fyrirskipaði Engoron að Trump yrði sviptur ráðum yfir eignum sínum í New York og sumum viðskiptaleyfum.