Börn sækist eftir að fá að drepa

„Mál es vílmögum at vinna erfiði.“ Mikið mæðir á sænsku …
„Mál es vílmögum at vinna erfiði.“ Mikið mæðir á sænsku lögreglunni þessa dagana í fordæmalausri bylgju ofbeldis þar í landi. AFP

Sænski ríkislögreglustjórinn Anders Thornberg greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að nú væri svo komið að börn væru farin að sækjast eftir því að komast í glæpagengi landsins til þess að fá að drepa. „Nú finnast dæmi um börn sem hafa samband við gengin að eigin frumkvæði til að fá að drepa,“ sagði Thornberg, „börn og unglingar eiga ekki að sækja í að verða drápsmenn,“ bætti hann við.

Sagði hann glæpagengin fara með ógnarvald sem kalla mætti fordæmalaust í Svíþjóð. „Þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð áður og þetta er alvarleg ógn við öryggi landsins,“ sagði ríkislögreglustjóri en fyrr á fundinum lét hann þau orð falla að ofbeldisalda gengi yfir Svíþjóð og viðsjár er vaktar væru með glæpagengjum kostuðu saklaust fólk lífið, heilsuna og heimili sín. „Hér hefur ekki verið stigið yfir ein mörk heldur mörg,“ sagði Thornberg.

Anders Thornberg á blaðamannafundinum í morgun. Greindi hann frá því …
Anders Thornberg á blaðamannafundinum í morgun. Greindi hann frá því að börn sæktu nú í að komast í glæpagengi til að fá að ráða samborgara sína af dögum. AFP/Henrik Montgomery

Lygnir ekki í bráð

„Því miður bendir fátt til þess að þetta grófa ofbeldi gangi fljótt yfir. Við búumst við meira ofbeldi áður en málin taka aðra stefnu,“ sagði hann enn fremur og greindi frá 300 handtökum lögreglunnar upp á síðkastið. „Hverja viku komum við í veg fyrir manndráp og sprengingar auk þess að leggja hald á fíkniefni, vopn og peninga,“ sagði lögreglustjóri á fundinum.

Fundinn sótti einnig Katarina Johansson Welin ríkissaksóknari og kvað ástandið í Svíþjóð grafalvarlegt. „Við stöndum frammi fyrir mjög erfiðum aðstæðum sem gera miklar kröfur til þess hluta ákæruvaldsins sem sinnir afbrotum glæpagengja,“ sagði saksóknari og greindi frá væntanlegri skýrslu lögreglunnar sem lögð verður fyrir sænsku ríkisstjórnina á mánudaginn. Verður þar meðal annars að finna tillögur um samstarf á landsvísu, á vettvangi lögregluumdæma og sveitarfélaga til að stemma stigu við þeirri vargöld er nú þyngir Svíum.

SVT

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert