Pattstaða á bandaríska þinginu

Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild.
Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild. AFP/Mandel Ngan

Bandaríska ríkisstjórnin nálgast það að vera í lamasessi þar sem nokkrir þingmenn repúblikana í fulltrúadeild hafa skapað mikla óreiðu innan síns þingflokks og neita að samþykkja nýtt fjárlagafrumvarp. 

Stjórnvöld vestanhafs eru að renna út á tíma og það stefnir í lokun ríkisstofnana ef ekki næst að ná sáttum fyrir aðfaranótt sunnudags. Lokanirnar myndu hafa áhrif á milljónir starfsmanna hins opinbera. Einnig gætu þeir sem þiggja mikla aðstoð frá hinu opinbera, t.d. aldraðir og öryrkjar, horft upp á mikla hnignun í þjónustu.

Þetta væri þó langt frá því að vera fyrsta skiptið sem slíkt gerist og seinast þurfti að loka ríkisstofnunum einmitt af slíkum ástæðum árið 2019, þá undir ríkisstjórn Donalds Trump.

Nokkrir repúblikanar skapa usla í þingflokknum

Deildirnar tvær, sem eru undir forystu sitthvors stjórnmálaflokksins, eru því í ákveðinni pattstöðu þar sem lítill hópur repúblikana í fulltrúadeild þingsins hefur hindrað allar bráðabirgðalausnir.

Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild, lagði fram tillögu fyrir fulltrúadeildina fyrr í dag en nokkrir harðlínumenn flokksins neituðu að kjósa með því. Því hafa 232 þingmenn kosið gegn frumvarpinu en aðeins 198 þingmenn með því. 

Það frumvarp innihélt aftur á móti mikinn niðurskurð í ríkisútgjöldum, sem demókratarnir í öldungadeild eru ólíklegir til þess að samþykkja.

McCarthy hefur jafnframt kennt demókrötum um stöðuns. Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir þó að „samtalið er ekki milli forsetans og McCarthy“ og heldur áfram:

„Samtalið þarf að gerast á milli McCarthy og þingflokks hans. Sú er lausnin, þar er ringulreiðin sem við erum að sjá og það er það sem hann þarf að einbeita sér að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka