Stjórnvöld í Frakklandi hafa sagt veggjalús stríð á hendur. Veggjalús hefur fundist í ríkara mæli í opinberum byggingum í París, þar á meðal í neðanjarðarlestakerfinu, á Charles-de-Gaulle-flugvellinum og á sjúkrahúsum.
Myndbönd hafa farið á flug á samfélagsmiðlum þar sem veggjalýs eru greinilegar í umræddum byggingum.
Samgönguráðherrann Clement Beaune sagði á X, áður Twitter, að hann ætlaði sér að funda með stjórnendum almenningssamgangna í næstu viku og greina þeim frá hvaða ráðstafanir yrðu gerðar.
Veggjalýs hurfu að mestu á sjötta áratug síðustu aldar en hefur þessi vágestur orðið æ sýnilegri á síðustu áratugum. Er það meðal annars vegna fólksfjölgunar, hversu þétt fólk býr og ferðalaga.
Talið er að veggjalús leynist á allt að tíu prósent heimila í Frakklandi.
Borgarstjórn Parísar kallaði eftir því í gær að ríkisstjórn Emmanuels Macrons myndi liðsinna borginni í stríðinu gegn veggjalús. Var lagt til að stofnuð yrði nefnd um baráttuna.