Rúmlega 100 þúsund manns hafa flúið fjallahéraðið Nagornó-Karabak að sögn armenskra stjórnvalda eftir að hersveitir Aserbaídsjans náðu völdum þar í síðustu viku.
Nazeli Baghdasaryan, talsmaður armenska forsætisráðherrans, greindi frá því að 100.417 flóttamenn hafi farið yfir landamærin á síðustu tíu dögum.
Talið er að um 120 þúsund Armenar hafi búið í Nagornó-Karabak áður en Aserar hrifsuðu héraðið til sín í hernaðaraðgerðunum. Héraðið hefur verið undir stjórn Armena undanfarna þrjá áratugi. Allar opinberar stofnanir héraðsins verða leystar upp frá og með 1. janúar.
Artak Beglaryan, sem var áður embættismaður í héraðinu, greindi frá því á samfélagsmiðlum að „síðustu íbúar“ héraðsins myndu yfirgefa héraðið í dag.
Hann sagði að einungis nokkur hundruð Armena yrðu eftir, flestir þeirra væru embættismenn, viðbragðsaðilar og sjálfboðaliðar.