Bandaríkjaþing hefur örfáar klukkustundir til að samþykkja nýtt fjárlagafrumvarp og þar með koma í veg fyrir lokanir ríkisstofnana landsins á miðnætti. Repúblikanar hafa loksins samþykkt bráðabirgðalög en í þeim er fólginn niðurskurður í framlögum til Úkraínu, sem demókratar í öldungadeild þingsins, eru ólíklegir til að samþykkja.
Allar ríkisstofnanir, nema þær allra mikilvægustu, loka á miðnætti, klukkan fjögur um morgun á íslenskum tíma, ef þingmenn ná ekki sáttum. Síðast þurfti að loka ríkisstofnunum einmitt af slíkum ástæðum árið 2019.
Lokanirnar myndu hafa áhrif á milljónir starfsmanna hins opinbera. Einnig gætu þeir sem þiggja mikla aðstoð frá hinu opinbera, t.d. aldraðir og öryrkjar, horft upp á mikla skerðingu í þjónustu.
Öldungadeildin og fulltrúadeildin, sem eru undir forystu sitthvors flokksins, hafa verið í ákveðinni pattstöðu þar sem lítill hópur repúblikana í fulltrúadeild þingsins hefur hindrað allar bráðabirgðalausnir þar til nú.
Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild, boðaði til atkvæðagreiðslu í dag á nýju frumvarpi sem myndi halda ríkisstofnunum opnum í 45 daga með núverandi útgjöldum en að undanskildum fjárframlögum til Úkraínu – sem er mörgum demókrötum hjartans mál.
„Ég bið repúblikana, sem og demókrata, um að leggja flokkspólitíkina til hliðar,“ sagði McCarthy í morgun.
Mikil spenna hefur verið meðal þingmanna repúblikana sem og hafa harðlínuflokksmenn sumir hótað því að fjarlæga McCarthy úr stöðu sinni sem leiðtogi þingflokksins.
„Ef einhver vill fjarlægja [mig] vegna þess að ég vil vera fullorðni einstaklingurinn í herberginu, látið á það reyna,“ sagði McCarthy, er hann reyndi jafnframt að vísa ábyrgðinni um pattstöðuna á Joe Biden Bandaríkjaforseta.