Flokkur hlynntur Rússlandi bar sigur úr býtum

Robert Fico, formaður Smer-SD flokksins.
Robert Fico, formaður Smer-SD flokksins. AFP

Smer-SD flokkurinn bar sigur úr býtum í þingkosningum í Slóvakíu. Flokkurinn er leiddur áfram af fyrrverandi forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, en flokkurinn er einkar gagnrýninn á Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið (NATO) og vill stöðva alla aðstoð Slóvakíu við Úkraínu í baráttunni gegn Rússlandi. 

Smer-SD fékk 23,3% atkvæða þegar að búið var að telja nánast alla kjörseðla snemma í morgun og flokkurinn þar með með mesta fylgið. Bandalag frjálslyndra (PS) þurfti að lúta í lægra haldi en hlaut 17% atkvæða. 

Ekki eitt einasta skotvopn til Úkraínu

Sérfræðingar telja að möguleg ríkisstjórn Fico gæti umbreytt utanríkisstefnu Slóvakíu og gæti hún þá orðið svipuð stefnu ríkisstjórnar Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.

Fico hefur lýst því opinberlega yfir að undir hans stjórn muni Slóvakía ekki senda eitt einasta skotvopn til Úkraínu. Hann kallar jafnframt eftir því að Slóvakía myndi betra samband við Rússland.

Kutna Hora, stjórnmálafræðingur í Slóvakíu, sagði í samtali við frönsku fréttaveituna AP að Orban muni nú eignast nýjan bandamann með þessum sigri Fico. Með sigrinum hlýtur Smer-SD flokkurinn 42 þingsæti af 150 og þarf flokkurinn því að mynda samstarf við aðra flokka til að mynda meirihluta.

Robert Fico fagnaði sigri flokksins vel þegar að niðurstöðurnar lágu …
Robert Fico fagnaði sigri flokksins vel þegar að niðurstöðurnar lágu fyrir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert