Friðargæsluliðar í héraðinu í fyrsta sinn í 30 ár

Nærri allir armenskir íbúar Nagornó-Karabak hafa yfirgefið heimilin sín.
Nærri allir armenskir íbúar Nagornó-Karabak hafa yfirgefið heimilin sín. AFP/Alain Jocard

Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) koma til Nagornó-Karabak í dag. Nánast allir Armenar sem bjuggu í héraðinu hafa flúið svæðið eftir að Aserar tóku þar við völdum. 

Þetta er í fyrsta sinn í rúmlega 30 ár sem friðargæsluliðar SÞ hafa haft aðgang að héraðinu, en armenskir aðskilnaðarsinnar voru við völd í Nagornó-Karabak í nærri þrjá áratugi.

Samkvæmt talsmanni aserska stjórnvalda munu friðargæsluliðarnir sinna mannúðaraðstoð.

Um 120 þúsund Armenar bjuggu í héraðinu fyrir hernaðaraðgerðir Asera.

Stjórnvöld í Armeníu saka Asera um „þjóðernishreinsun“, ásökun sem stjórnvöld í Aserbaídsjan neita. Þau hafa hvatt Armena í Nagornó-Karabak til þess að yfirgefa ekki heimili sín, heldur aðlagast lífi í Aserbaídsjan þar sem réttindi þeirra verða virt. 

Alþjóðlegi Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn tilkynntu á föstudag áætlun um fjárhagsaðstoð til Armena á flótta sem mun hljóða upp á 20 milljón svissneska franka, eða um þrjá milljarða íslenskra króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert