Nærri ein milljón manna söfnuðust saman í Varsjá í Póllandi í dag til að mótmæla ríkisstjórn landsins, tveimur vikum fyrir kosningar í landinu.
Donald Tusk, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands og leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Civic Coalition, hvatti til mótmælanna.
„Þetta eru algjörlega stærstu mótmæli í sögu Varsjár,“ sagði Monika Beuth, talskona borgarstjórnar Varsjá, í samtali við AFP-fréttaveituna og bætti við að um milljón manns hafi komið saman.
Mótmælendur gengu í gegnum borgina með fána Póllands og Evrópusambandsins. Í ræðu sinni sagði Tusk að Pólverjar ættu betra skilið.
Hinn 65 ára gamli Kazimierz Figzal ferðaðist í sjö klukkustundir til borgarinnar til þess að taka þátt í mótmælunum.
„Við höfum fengið nóg af því sem við sjáum nú. Það er verið að hefta frelsi okkar. Við viljum lýðræði fyrir börnin okkar og barnabörnin okkar,“ sagði Figzal við AFP.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur ríkisstjórnin um 35% fylgi. Civic Coalition er þar á eftir með 27% fylgi. Þingkosningarnar fara fram 15. október.